1. grein
Aganefnd skal skipuð þremur mönnum og tveimur til vara. KLÍ sér um skipun þeirra, og skal formaður nefndarinnar skipaður sérstaklega.
2. grein
Aganefnd skal fjalla um brot leikmanna, forystumanna og aðstoðarmanna á leikstað, í A- eða B-mótum, sem koma fram á dómaraskýrslu.
Ef dómaraskýrsla berst frá öðru liðinu í Íslandsmóti liða skal hinu liðinu gefin kostur á að skila inn skýrslu áður en aganefnd tekur málið fyrir, og hefur liðið 48 tíma til þess. Skal afhending seinni skýrslunnar ráða tímamörkum aganenfndar til úrskurðar samkvæmt 13. og 14. grein um aganefnd.
3. grein
Úrskurði aganefndar verður ekki áfrýjað.
4. grein
Veita skal refsistig fyrir brot sem hér segir:
- 2 refsistig fyrir:
- reykingar, aðra tóbaksnotkun og notkun rafretta
- notkun hverskyns dufts undir keiluskó í keppni
- notkun hverskyns dufts í gryfjunni, nema hvað nota má „svitapoka“
- önnur minniháttar óprúðmannleg framkoma að mati aganefndar
- áreiti gagnvart fulltrúum KLÍ
- 4 refsistig fyrir:
- meiðandi ummæli um leikmenn, áhorfendur eða starfsfólk
- 6 refsistig fyrir:
- gagnrýni á ákvarðanir mótsstjóra/dómara
- grófa óíþróttamannslega framkomu
- 10 refsistig fyrir:
- endurtekna óíþróttamannslega framkomu
- endurtekið áreiti gagnvart fulltrúum KLÍ
- 16 refsistig fyrir:
- ofbeldi utan eða innan leikstaðar
- að hafa vísvitandi rangt við
- misnotkun lyfja eða áfengis í keppni
- ólögmæta þátttöku í leik
- önnur brot sem leiða til brottvikningar af leikstað.
5. grein
Refsing skal vera að lágmarki sem hér segir:
- Fyrir 4 refsistig – 1 sería í bann
- Fyrir 6 refsistig – 2 seríur í bann
- Fyrir 10 refsistig – 4 seríur í bann
- Fyrir 16 refsistig – 10 seríur í bann
Aganefnd er heimilt að ákveða annað form á refsingu, t.d. tímabundið keppnisbann.
Með seríu er átt við 3 leiki eða fleiri sem leiknir eru sama dag, eftir fyrirkomulagi móts. Hafi leikmaður fengið einnar seríu bann vegna 4 refsistiga, og nær síðan 6 refsistigum skal hann hljóta tveggja seríu bann til viðbótar. Nái hann 10 refsistigum kemur 4 seríu bann til viðbótar. Nái hann 16 refsistigum kemur 10 seríu bann til viðbótar.
Refsingu er aðeins hægt að taka út í mótum sem haldin eru af KLÍ og skal aganefnd ákvarða í hvaða mótum leikmaður skal taka út leikbann.
6. grein
Fyrir brottvikningu eða brot sem framið er utan leikmannasvæðis þannig að brottvikningu verði ekki komið við, eða önnur brot alvarlegs eðlis að mati aganefndar, meðal annars öll brot sem fallið geta undir íslenska hegningarlöggjöf, gagnvart leikmanni, starfsmanni, dómurum eða áhorfendum, skal heimilt að refsa leikmanni með tímabundnu banni. Ítrekun getur, ef brot er mjög alvarlegs eðlis, varðað allt að 12 mánaða banni. Slíkt bann nær til allra móta á vegum KLÍ.
7. grein
Ef leikmenn liðs leika ekki allir í eins búningum, eins og kveðið er á um í reglugerð um keilumót, er aganefnd heimilt að dæma félagið í allt að 5.000,- kr. sekt.
8. grein
Ef leikmaður sem er í banni, skiptir um lið og/eða félag, skal refsingin fylgja honum.
9. grein
Ef lið og/eða félag notar leikmann sem er í banni, skal umrædd viðureign dæmd því liði/félagi töpuð.
10. grein
Refsistig sem leitt hafa til refsingar bætast við ný áunnin refsistig á sama leikári og leiða til aukinnar refsingar. Áunnin refsistig hafa einungis áhrif á því leikári sem þau eru unnin á, en refsing þar til hún er tekin út.
11. grein
Heilt lið brýtur af sér ef það yfirgefur leikstað í mótmælaskyni, neitar að hefja leik, halda leik áfram eða mætir ekki til leiks án þess að hafa fyrir því gilda ástæðu. Refsing við því getur orðið brottrekstur úr keppni, stigatap, bann á alla leikmenn liðsins og/eða sektir.
12. grein
Dómarar/mótsstjórar skulu koma skriflegri skýrslu um brot til aganefndar innan 48 klukkust. frá lokum viðureignar eða lokum móts. Sé skýrslan póstlögð skal tilkynna það sérstaklega.
Nefndin leggur þær skýrslur til grundvallar þegar hún tekur afstöðu til mála sem varða viðurlög. Þó skal nefndin gefa kost á munnlegum eða skriflegum málflutningi ef mál eru alvarlegs eðlis og varða þyngstu viðurlögi.
13. grein
Brot skulu tekin til meðferðar innan 7 sólarhringa frá því skýrsla dómara berst aganefnd. Úrskurð aganefndar um refsingu skal tilkynna strax að lokinni umfjöllun nefndarinnar og tekur hann gildi kl. 12:00 á hádegi næsta dag. Óheimilt er að taka út refsingu áður en úrskurður aganefndar tekur gildi. Úrskurð sinn skal aganefnd tilkynna viðkomandi félagi með sannanlegum hætti.
14. grein
Hafi aganefnd ekki kveðið upp úrskurð 14 sólarhringum eftir að skýrsla dómara barst, teljast brot samkvæmt 4. grein a) til d) fyrnd en brot samkvæmt 4. grein e), 6. grein og 11. grein fyrnast að refsingu lokinni.
15. grein
Aganefnd skal halda fundargerðir og skrá þar ákvarðanir sínar.
Breytt á formannafundi 11. apríl 2012
Breytt á formannafundi þann 28. desember 2016