Magnús Magnússon Íslandsmeistarinn úr KR er að vekja mikla eftirtekt í Evrópska keiluheiminum þessa dagana með frábærri spilamennsku í Álaborg.
Magnús er staddur í Álaborg ásamt þeim Stefáni Classen og Hafþóri Harðarsyni að spila á Brunswick Aalborg International. Magnús spilaði í sínum fyrsta riðli á miðvikudagskvöldið og byrjaði með látum eða 245 leik, næsti leikur hans var örlítið lægri eða 229 og sá þriðji 236 eða 710 í seríu. Í fjórða leik mætti segja að Magnús hafi sett í sprengigírinn því þá kom 257, 268 og 279 eða 804 í seríu. Heildarskor Magnúsar er því 1514 og er hann enn efstur í mótinu þrátt fyrir mikið af verulega sterkum spilurum þar með talda atvinnumennina Sean Rash og Mika Kouvuniemi. Stefán er í 69. sæti með 1272, hæsti leikur 290 og Hafþór er í 86. sæti með 1249 og hæsta leik 269
Forkeppni mótsins lýkur annað kvöld með Desperado Squad en nokkuð ljóst má vera að þessi árangur Magnúsar í forkeppninni tryggir honum eitt af topp 24 sætunum í mótinu og lágmark 900€ í verðlaunafé. Netmiðill Bowlers Journal heldur uppi mjög góðri og skemmtilegri fréttaveitu frá mótinu sem er uppfærð eftir hvern riðil og er greinilegt að þeim kemur mikið á óvart frammistaða þessa Íslendins. Fréttirnar má skoða hér.