1. grein
Íslandsmót unglingaliða skal haldið árlega og skal haldið á tímabilinu október til apríl. Unglingar sem eru í 5. til 10. bekk grunnskóla hafa þátttökurétt auk eins keppanda úr 4. bekk í hverri umferð.
2. grein
Rétt til þátttöku í Íslandsmóti unglingaliða hafa öll félög innan KLÍ og skulu þau skila inn tilkynningu um þátttöku í mótinu fyrir lið sín eigi síðar en 30. september. Unglingalið skulu skipuð a.m.k. 3 unglingum og er heimilt að hafa blönduð lið pilta og stúlkna. Þrír leika hverju sinni. Um liðaskipti milli unglingaliða, innan félags eða milli félaga, gilda almennar liðaskiptareglur KLÍ. Þjálfari eða liðsstjóri skal fylgja unglingaliðum til keppni. Liði er ekki heimilt að hefja leik ef þjálfari eða liðsstjóri er ekki á staðnum.
3. grein
Íslandsmót unglingaliða skal leikið í fimm umferðum og hver umferð skal vera þrír leikir.
Unglinganefnd ákveður leikfyrirkomulag á hverju tímabili í samráði við framkvæmdastjóra með hliðsjón af þátttöku.
Tvö stig eru gefin fyrir unnin leik og eitt stig fyrir jafntefli.
Sé fjöldi liða oddatala skal oddalið engu að síður spila leikinn og fá fullt hús stiga fyrir þann leik.
4. grein
Úrslitakeppni
Tvö efstu liðin eftir síðustu umferðina spila til úrslita. Séu lið jöfn að stigum skal heildarpinnafall ráða. Séu liðin jöfn að pinnum skal hlutkesti ráða. Mótstjóri varpar hlutkestinu.
Það lið, sem fyrr vinnur tvo leiki, sigrar og hlýtur nafnbótina „Íslandsmeistari unglingaliða.“
5. grein
Frestun viðureignar
Engar frestanir einstakra leikja eru veittar í Íslandsmóti unglingaliða.
Unglinganefnd er þó heimilt að fresta umferð vegna veigamikilla ástæðna.
Veigamiklar ástæður eru:
- Samgönguerfiðleikar vegna veðurs
- Leikmenn liða eru fjarrverandi í keppni á vegum KLÍ
Unglinganefnd tilkynnir félögum viðkomandi liða, sem og öðrum sem málið kann að varða, um frestun og nýjan leiktíma eins fljótt og auðið er.
6. grein
Fjarveruskor
100 stig skulu veitt í fjarveruskor. Ef leikmaður þarf frá að hverfa vegna meiðsla þá fær leikmaður 10 stig í fjarveruskor fyrir hvern ramma. Ekki er veitt forgjöf á fjarveruskor.
7. gr.
Forgjöf
Leikið skal með forgjöf.
Forgjöf er 100% af mismun meðaltals og 200, þó skal forgjöf aldrei vera hærri en 80 pinnar. Ekki er hægt að hafa neikvæða forgjöf og sé leikmaður með hærra meðaltal en 200 skal hann hafa 0 í forgjöf.
Hámarksskor í einum leik verður aldrei hærra en 300. Hafi leikmaður ekki forgjöf skal miðað við 80 í forgjöf.
Breytt á stjórnarfundi KLÍ 23.10.2022