Í dag var keppt í tvímenningi á EM U18 sem fram fer í Álaborg í Danmörku. Fyrst hófu keppni þeir Steindór Máni Björnsson og Ágúst Ingi Stefánsson en báðir koma þeir úr ÍR. Náðu þeir fínum árangri í sínum riðli og enduðu í 6. sæti með 2.517 pinna eða 212,4 í meðaltal. Alls kepptu 21. tvímenningur í þeim riðli. Steindór Máni spilaði 1.330 í 6 leikjum eða 221,7 í meðaltal sem skilar honum eftir daginn í 2. sæti í heildarkeppni einstaklinga á mótinu. Glæsilegur árangur það.
Seinna um daginn kepptu svo þeir Jóhann Ársæll Atlason úr ÍA og Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín úr Þór en þeir náðu 2.219 pinnum eða 184,9 í meðaltal og enduðu í 14. sæti í sínum riðli af alls 22 tvímenningum.
Á morgun fer svo fram keppni í tvímenningi stúlkna. Þá leika Elva Rós Hannesdóttir úr ÍR og Helga Ósk Freysdóttir úr KFR saman og svo Málfríður Jóna Freysdóttir KFR og Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir úr Þór. Elva og Helga hefja leik kl. 07 í fyrramálið og þær Málfríður og Guðbjörg hefja keppni kl. 11:15. Hægt er að fylgjast með skori, beinum útsendingum og öðru sem gerist á mótinu á vef þess. Hópurinn er einnig með Fésbókarsíðu en þar inn rata myndir og ýmislegt fróðlegt úr ferðinni.