300 leikur í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar á Stöð2 sport

Facebook
Twitter
Sunnudaginn16. febrúar, hófst úrvalsdeildin í keilu sem sett er upp í samvinnu við Stöð 2 sport.
12 keppendur hafa unnið sér inn réttinn til þátttöku í deildinni eftir fyrirkomulagi sem lesa má nánar um hér 
Leikið er með þeim hætti að allir spila tvo leiki við alla og sá aðili sem er með hærra heildarskor úr þessum tveimur leikjum fær tvo stig, 1 stig ef um jafntefli er að ræða. Konurnar fá 12 pinna í forgjöf eins og algengt er á mótum þar sem ekki er um kynjaskiptingu að ræða.
Í þessum fyrsta riðli kepptu Andri Freyr Jónsson (KFR), Hafdís Pála Jónasdóttir (KFR), Hinrik Óli Gunnarsson (ÍR) og Ísak Birkir Sævarsson (ÍA/Höganäs).
Örlítið hökt var á keppendum í byrjun enda fylgir því töluverð spenna að vera að spila í beinni útsendingu. Þau voru þó fljót að hrista það af sér og spiluðu öll góða leiki og var keppnin hörkuspennandi þar sem úrslit réðust ekki fyrr en í síðustu köstunum.

Í fyrsta leik kepptu Hafdís og Ísak annars vegar og Andri og Hinrik hinsvegar. Mjög jafnt var í báðum leikjum en þeir fóru svo að Ísak Birkir spilaði 413 (179+234) á móti Hafdísi sem fékk 393 (181+188 + forgjöf) á meðan Hinrik spilaði 365 (153+212) á móti Andra sem var með 356 (177+179) og Ísak og Hinrik því komnir með 2 stig hvor.

Í leik 2 spilaði Andri á móti Ísak og Hinrik við Hafdísi og þar áttu hlutirnir heldur betur eftir að gerast. Eftir smá brösugan fyrri leik hjá Hinrik þar sem hann fékk 163 pinna reif hann sig heldur betur í gang og skellti í fullkominn leik sem er 300 stig. Þetta er hans fyrsti 300 leikur á móti og frábært að ná slíkum árangri á fyrsta kvöldi úrvalsdeildarinnar í beinni útsendingu. Hinrik var því með 463 pinna á móti 407 pinnum hjá Hafdísi (161+222+forgjöf). Í hinum leiknum spilaði Ísak Birkir 376 (200+176) á móti 401 hjá Andra (214+187) og Hinrik því kominn í kjörstöðu með 4 stig eftir 2 leiki á meðan Ísak og Andri voru með 2 stig hvor en Hafdís var án stiga.

Það var því ljóst að síðasti leikurinn var mikilvægur fyrir keppendur, en efsti keppandinn kemst beint í úrslit á meðan annað sætið fer í roll-off undanúrslitaleik. Þá spilaði Hinrik á móti Ísak og Hafdís við Andra. Hafdís spilaði 360 (163+173+forgjöf) á móti 363 (192+171) hjá Andra sem var þá kominn með 4 stig.
Eins og algengt er eftir að keilari spilar 300 leik var spennufallið aðeins að trufla Hinrik í fyrri leiknum á móti Ísak þar sem hann spilaði 188 á meðan Ísak spilaði 255. Hinrik reif sig í gang aftur í seinni leiknum og spilaði 248 á móti 215 hjá Ísak. Ísak Birkir tók þá stigin 2 úr leiknum með 470 á móti 436 hjá Hinrik.
Að öllum leikjum loknum voru því Andri Freyr, Hinrik Óli og Ísak Birkir allir jafnir með 4 stig og þá var það heildarskor allra leikja sem réði sætaröðun. Þar var Hinrik efstur með 1264 en Ísak annar með 1259. Þessi litli munur þeirra á milli er lýsandi fyrir það hvernig keppnin gekk fyrir sig og ekkert varð ljóst fyrr en í síðasta kasti. Hinrik er því komin áfram í úrslitakeppnina en Ísak Birkir spilar undanúrslit. Andri Freyr og Hafdís Pála hafa lokið keppni að þessu sinni.

Næsti riðill fer svo fram næstkomandi sunnudag 23. Febrúar í beinni á Stöð2 sport kl 19.30.
Þar mæta meðal annars ríkjandi Íslandsmeistari og nýkrýndur RIG-meistari svo látið þennan viðburð ekki framhjá ykkur fara.
 
höf: Rósalind Signýjar Kristjánsdóttir

Nýjustu fréttirnar