Stjórn KLÍ hefur útnefnt þau Hafþór Harðarson og Lindu Hrönn Magnúsdóttir úr ÍR sem keilara ársins 2022,
er þetta í 8. sinn sem Hafþór hlýtur þessa útnefningu og fyrsta sinn sem Linda Hrönn er útnefnd.
Hafþór Harðarson er keilari ársins í karlaflokki og er það í áttunda sinn sem hann hlýtur þennan titil. Hafþór hefur verið virkur í mótum á árinu og náð frábærum árangri bæði persónulega og með liði sínu
ÍR-PLS. Hafþór varð á árinu íslandsmeistari einstaklinga, reykjavíkurmeistari og lenti í 2. sæti á RIG.
Í deildinni átti Hafþór hæsta leikinn í karlaflokki með 290 pinna, hann átti hæsta meðaltal 219,33 ásamt því að vera fellukóngur með að meðaltali 6,64 fellur í leik. ÍR-PLS urðu bikar- og deildarmeistarar með hæsta meðaltal í deildinni ásamt því að hljóta stjörnuskjöldinn.
Linda Hrönn Magnúsdóttir er keilari ársins í kvennaflokki og er það í fyrsta sinn sem hún hlýtur þann titil. Linda varð á árinu íslandsmeistari einstaklinga, stigameistari kvenna, sigraði Íslandsmót para ásamt Gunnari Þór Ásgeirssyni ásamt því að ná 2. sæti í deildinni með liði sínu ÍR-TT.
Þessu til viðbótar náði Linda Hrönn á verðlaunapall á Evrópumóti öldunga þegar hún náði 3. sæti eftir harða og spennandi keppni.
Keilusambandið óskar þeim innilega til hamingju!