Um helgina fór fram Íslandsmótið í tvímenningi í Keiluhöllinni Egilshöll. Úrslit fóru þannig að þær Ástrós Pétursdóttir ÍR og Dagný Edda Þórisdóttir KFR urðu Íslandsmeistarar og er það í fyrsta sinn sem konur hampa þessum titli. Þær settu einnig Íslandsmet í einum leik þegar þær náðu 475 pinnum og slógu þar með 27 ára gamalt met þeirra Heiðrúnar B Þorbjörnsdóttur og Sólveigar Guðmundsdóttur báðar úr KFR. Met þeirra Heiðrúnar og Sólveigar er það elsta í íslenskri keilu en eftir stendur met þeirra í tveim og þrem leikjum, sjá nánar.
Þær Ástrós og Dagný unnu þá Skúla Frey Sigurðsson ÍA og Stefán Claessen ÍR í fjórum leikjum í úrslitum með samtals 1.463 pinna (182,9 mt.) gegn 1.430 (178,8 mt.). Í fjórða og síðasta leik unnu stelpurnar aðeins með tveim pinnum og stóðu þar með uppi sem Íslandsmeistarar. Sannarlega spennandi leikur hjá þessum keilurum. Í þriðja sæti urðu svo þeir Freyr Bragason og Steinþór Geirdal Jóhannsson úr KFR.