Hér kemur smá pistill eftir formann Keilusambands Íslands um stöðu mála varðandi aðstöðu keilunnar sem íþrótt á landinu.
Það er vert að byrja þennan pistil á því að þakka Elísabetu Ingu Sigurðardóttur fréttamanni á Stöð 2 fyrir að sýna aðstöðu keilunnar áhuga. Fréttainnskot kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 á Páskadag sem var þakkarvert af okkar hálfu að fá.
Núverandi brautarfjöldi á Íslandi
Ef við ræðum um aðstöðu keilunnar hér á þessum vettvangi það er á vef Keilusambandsins þá þurfum við að ræða um hana á landsvísu.
Innan KLÍ eru félög innan þriggja héraðssambanda, Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþróttabandalag Akraness og Íþróttabandalag Akureyrar. Innan ÍBR eru starfandi deildir og félög inna ÍR, Keilufélag Reykjavíkur, KR og Íþróttafélagið Öspin. Á Akranesi er það Keilufélag Akraness sem keppir almennt undir merkjum ÍA og fyrir norðan er deild innan Þórs á Akureyri.
Fyrir nokkrum árum voru 55 brautir í gangi á landinu öllu þar af 3 á Akranesi, 8 á Akureyri og þá 44 í Reykjavík. Í dag eru einungis 25 brautir í gangi og hefur þeim því fækkað um 55 prósent frá því mest var. Eftir eru 22 brautir í Egilshöll og 3 á Akranesi.
Umhverfi keilu sem íþróttar
Staða félaganna er mjög misjöfn. Í lang verstu stöðunni eru Þórsarar á Akureyri en þeir misstu sinn sal fyrir nokkrum árum. Í stað þess að leggja árar alveg í bát tóku þeir þá ákvörðun um að keyra suður á Akranes og spila heimaleiki sína þar á Íslandsmóti deildarliða. Fara þeir því um 350 km aðra leið til að leika sína heimaleiki og er það mér til efs að nokkrir aðrir sem stunda íþrótt innan ÍSÍ leggi annað eins á sig til að halda starfsemi sinni gangandi. Keiludeild Þórs á heiður skilinn fyrir framúrskarandi metnað til íþróttarinnar.
Mjög mikil þörf er á aðstöðu fyrir norðan. Undirritaður hefur farið norður til að hvetja fólk til þess að koma upp ásættanlegri aðstöðu í heimabyggð svo starfið þar líði ekki undir lok en ekki er hægt að ætlast til þess að menn leggi endalaust á sig mörg þúsund kílómetra akstur á hverju ári til að halda liðum gangandi í keppni.
Ekki þarf að hugsa mjög stórt fyrst um sinn fyrir norðan og í raun algjör óþarfi að skoða aðstöðu þar með einhverja þjónustu við almenning eða hræðslu við að sú aðstaða verði hugsanlega í samkeppni við almennan rekstur ef einhverjum dytti í hug að opna sal þar síðar. Nóg er að opna 4 til 6 brauta aðstöðu sem nýtist Þór fyrst og fremst til æfinga og heimaleikja í sínu póstnúmeri. Ef 6 brautir yrðu opnaðar þá gæti KLÍ komið með verkefni norður svo sem umferð í Meistarakeppni ungmenna o.fl. sem auðveldlega er hægt að fara með á milli staða. Með því geta þau eflt starf sitt til muna.
Á Akranesi er staðan betri en mætti vera enn betri. Við veðrum að hrósa bæjaryfirvöldum á Akranesi fyrir innlegg í aðstöðumálin en fyrir ekki svo löngu var fjárfest í nýjum keiluvélum og í aðstöðunni sjálfri með meðal annars Specto greiningarkerfi. Á Skaganum eru þessar 3 brautir en munar ansi miklu á möguleikum staðarins að hafa ekki fjórðu brautina með. Það mundi strax bjóða upp á t.d. 2 viðureignir á sama tíma, meiri umferð um húsið. Sama röksemdarfærsla er þar ef um 6 brautir væru að ræða með verkefni sambandsins.
Kemur þá að höfuðborginni.
Hér í bæ erum við í skrítinni stöðu. Tökum það strax fram að með tali okkar um aðstöðu og aðalega aðstöðuleysi þá erum við ekki að gagnrýna rekstur Keiluhallarinnar í Egilshöll. Það er staður sem er í einkaeigu, rekinn í hagnaðarskyni eins og almennt gerist jú með rekstur en keila sem íþrótt raskast á við almennan hagnaðardrifinn rekstur. Við eigum ekki hlut í þeim rekstri og því höfum við ekki einhverja sértaka kröfu á hvernig á að halda utan um reksturinn. Keiluhöllin hefur klárlega gert margt fyrir okkur enda er um eina stað keilunnar í Reykjavík að ræða og fólk sem betur fer almennt vel að vilja gert. Okkar hagur er að sá salur sé fullur af fólki alla daga. Það eykur bara áhuga almennings á keilu og hver veit nema okkur takist að vekja áhuga þeirra á íþróttinni okkar.
Frá því undirritaður hóf sérleg afskipti af stjórnun innan keilunnar hér í bæ fyrir um 8 árum hafa aðstöðumál verið ofarlega í huga. Fleiri en undirritaður hafa lagt mikla vinnu við málaflokkinn, ómetanlega vinnu á sama tíma. Fleiri hafa auk þess á undan gengið í gegn um árin með ómældri vinnu, samtölum við ráðamenn og allt þar fram eftir götunum. Þessi vinna síðast liðin ár hefur skilað því að ÍTR hefur séð með eigin augum hvernig að okkur er búið. Ómar Einarsson sem veitir ÍTR forstöðu hefur verið okkur mjög hliðhollur að mínu mati og talað okkar máli innan borgar. Honum kann ég persónulega bestu þakkir fyrir.
Ég hef lært það á þessari leið minni að pólitíkin er skrítin og virkar oft á tíðum, held oftar en ekki, fjári hæg. En þetta potast samt áfram. Því nú er staðan þannig að Borgarráð Reykjavíkur samþykkti þann 3. september 2020 tillögu Borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar, um uppbyggingu íþróttamannvirkja til ársins 2030. Þar er keila nefnd á nafn og er sett á blað undir 7. lið af alls 18 mannvirkjum eða aðstöðumálum sem huga á að og er nefnd talan 400 milljónir í aðstöðuna. Nú eru að verða 2 ár frá samþykkt Borgarráðs, 2 ár. Ekkert er þó enn fast eða ákveðið að gera á þessum 2 árum og 8 ár eftir af planinu. Við lifum þau ekki af án ákvörðunar. Í raun lifum við ekkert mörg ár í viðbót án ákvörðunar.
Vitað er að tillögur um tvær staðsetningar hafa komið fram. Önnur er á ÍR svæðinu í tengibyggingu við núverandi hús svæðisins. Hin tillagan er að koma aðstöðunni fyrir í kjallara við stækkun Skautahallarinnar. Tel ég að vinnan við ÍR svæðið er lengra komin en þar er búið að greina betur hvernig aðstaðan passar inn í fyrirhugaða byggingu og búið að greina rekstur svona aðstöðu nokkuð vel og nákvæmlega. Það hefur verið gert af aðalstjórn ÍR sem og keiludeildinni.
Samanburður við Norðurlöndin
Við stöndum svo langt á eftir nágrönnum okkar með aðstöðu. Athugun hefur leitt í ljós að almennt er talað um 2,5 til 3 sali á hverja 100 þúsund íbúa. Við erum með 0,6. Hér á Höfuðborgarsvæðinu þurfa helst að vera einhverjir 3 til 4 salir til að við getum verið til jafns við nágranna okkar.
Samkvæmt skýrslu ÍSÍ og fleiri aðila um Þjóðarleikvanga sem birt var um rétt á undan þegar Borgarráð afgreiddi sína samþykkt er það akkúrat nefnt að keilan þarf nauðsynlega aðstöðu um dreift svæði. Hér má hugsa til 6 til 12 brauta sali hér og þar. Við höfum alltaf Egilshöll fyrir stóra viðburði svo sem Evrópukeppni kjósum við að sækja aftur um að halda slíkar keppnir. Fleiri salir bjóða upp á fleiri brautir, hver salur sem sín sérkenni og félög geta þá búið til sína eigin félagsaðstöðu, sína eigin „ljónagryfju“ ef nota má þá samlíkingu sem þekkt er innan íþrótta.
Það má líkja aðstöðuleysi okkar við t.d. golf, að það sé bara einn golfvöllur til á landinu og allir æfa og keppa þar. Það sjá allir að íþrótt gengur ekki við slíkt aðstöðuleysi. Ef við ætlum að stefna á að þjálfa hér upp afreksfólk í okkar íþrótt þá þarf viðkomandi einstaklingur að flytja af landi brott eins og staðan er í dag og leita á náðir annarra.
Hver eru næstu skref?
Borgarráð hefur samþykk áætlun uppbyggingar. ÍTR veit af stöðu okkar og gerir sitt til að koma þessu á dagskrá. Það þarf bara að fara að taka ákvörðun og hefja verk. Ákvörðunarvaldið liggur hjá borginni og beðið er eftir henni.
Kostnaðartölur
Borgarráð samþykkti í tillögunni 400M varðandi keiluaðstöðu. Gera má ráð fyrir því að búnaður og vélar sem þarf fyrir 12 brauta sal sé um 130M til 150M til að koma upp topp aðstöðu. Það eru þá 250M til 270M eftir sem væri best borgið með því að samnýta hús undir aðra starfsemi. Það er einmitt hugsunin í þeim hugmyndum sem liggja á borðinu þessa dagana með ÍR svæðið eða Laugardalinn. Það er best fyrir keiluna að vera í samfloti með öðrum um aðstöðu. Spara má með því að samnýta þau atriði sem hægt er s.s. hreinlætisaðstöðu, húsvörslu, veitingaaðstöðu o.sv.fr.
Búið er að sýna fram á varðandi ÍR svæðið að sá rekstrarkostnaður sem verður vegna aðstöðu keilu verður lægri en sú upphæð sem keilan fær í dag í styrk frá ÍTR. Þetta er því í mínum huga borðleggjandi fyrir borgina að fara út í. Hér munu allir græða til bæði skamms tíma og lengri.
Skammtímaáætlun
Við í keilunni þurfum að setja okkur áætlanir bæði til skamms tíma og til lengri tíma. Skammtímaáætlun hlýtur alltaf að taka mið að því að komast inn sem fyrst á einhverjum stað með bestu mögulegu aðstöðu fyrir íþróttina og þá er talað um brautir, vélar og annan búnað sem til þarf.
Við teljum okkur vera í góðri stöðu til að sækja á og fjölga í íþróttinni á hinum ýmsu stigum hennar, allt frá unga aldri upp í eldri borgara. Það ætti því að vera mjög raunhæft að sprengja utan af sér 12 brauta aðstöðu á örfáum árum þannig að þörf fyrir frekari aðstöðu skapast.
Til þess þarf samstillt átak félaganna í Reykjavík. Félögin verða að koma sér saman um hvernig best er að halda utan um starfsemina og efla.
Bent hefur verið á að sambærilegir salir á Norðurlöndum og í öðrum nágrannalöndum sem við viljum miða okkur við að full starfsemi er í þeim sölum frá kl. 10 að morgni til 10 að kvöldi alla virka daga sem og yfir daginn um helgar.
Almennt er dagskrá salanna þessi:
- Frá kl. 10 til 14 koma eldri borgarar og nýta aðstöðuna. Talandi um eldri borgarana okkar. Það vantar sárlega möguleika á afþreyingu eða léttri íþróttaiðkun fyrir þá. Keila er kjörin íþrótt til þess enda margir sem komnir eru á efri ár sem stunda þetta um víða veröld með frábærum árangri og skemmtun um leið.
- Frá kl. 14 til 18 koma skólabörnin til æfinga. Hægt er að taka á móti börnum strax að skóla loknum og ef aðstaðan er í samfloti með öðrum þá sameiginlega eykst flæðið á staðnum.
- Frá kl. 18 til 22 koma síðan þeir sem eru í meistaraflokki til æfinga eða keppni. Víða erlendis eru sum kvöld tvísetin til keppni og þá jafnvel starfsemi lengur en til kl. 22.
- Um helgar getur verið starfsemi frá kl. 10 og frameftir degi, allt eftir verkefnum hvers tíma.
Það sést því hér að næg eru verkefnin fyrir okkur í keilunni. Okkur vantar bara þessa aðstöðu sem við fáum að ráða yfir sjálf og kostar ekki lunga að nýta.
Langtímaáætlun
Kemur þá að langtímasýn. Hvernig viljum við sjá keiluna eftir 5 ár? Eða 10 eða 15 eða 20?
Eins og nefnt er þá eru tækifærin okkar til að grípa. Ef íþróttin nær vexti er ekki óraunhæft að áætla að ný keiluaðstaða geti komin í næstu byggingar sem reisa á hér í Höfuðborginni eða víðar. Vitað er af uppbyggingu í Garðabæ og hugmyndir eru um eflingu íþróttamannvirkja er í raun í öllum byggðarkjörnum.
Keilusamfélagið þarf að nýta sér þá uppbyggingu, kynna sitt sport og koma því að. Það reynir þó fyrst á að koma aðstöðu upp á einum stað og gera starfið þar það öflugt að eftir því verði tekið.
Að lokum
Ég er þess fullviss um að aðilar klári þetta verkefni að finna keilunni framtíðarstað, veit að við eigum góðan bandamann innan ÍTR. Ég er þess líka fullviss um að keilusamfélagið nái viðspyrnu þegar okkar aðstaða kemur og að við náum að vaxa og verða enn stærri en þegar best lét á þeim 30 árum sem nú eru liðin frá því að keppni í keilu hófst undir merkjum sérsambands innan ÍSÍ. Það mun ekki taka langan tíma að sprengja komandi aðstöðu utan af okkur.
Það er vor í lofti. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn.
Jóhann Ágúst Jóhannsson
Formaður Keilusambands Íslands