Seint í gærkvöldi lauk keppni á Íslandsmóti einstaklinga 2022 í keilunni. Voru það þau Hafþór Harðarson og Linda Hrönn Magnúsdóttir, bæði úr ÍR, sem urðu Íslandsmeistarar.
Hafþór er að vinna þennan titil annað árið í röð og alls í 6. skipti á sínum ferli. Jafnar hann þar með Magnús Magnússon úr ÍR með fjölda titla. Linda Hrönn er hins vegar að vinna þennan titil í fyrsta sinn á ferlinum og til gamans má geta þá er hún nú sú elsta sem hefur unnið þennan titil en hún er á 63. aldursári en Linda hefur oft verið í úrslitum þessa móts.
Þrír efstu karl- og kvennkeilararnir komust í úrslit mótsins eftir forkeppni og milliriðil. Voru það, auk Hafþórs, þeir Arnar Davíð Jónsson úr KFR og Einar Már Björnsson úr ÍR sem komust í úrslitin. Einar Már féll út í fyrri leik úrslitanna með 160 pinna en Hafþór spilaði þar 232 og Arnar 203. Í hreinum úrslitaleik lagði Hafþór hann Arnar með 235 pinnum gegn 164.
Auk Lindu í úrslitum kvenna mættust þær Ástrós Pétursdóttir úr ÍR og Marika Lönnroth úr KFR sem báðar hafa hampað Íslandsmeistaratitlinum. Marika féll út í fyrri leiknum með 145 gegn 177 hjá Lindu og 184 hjá Ástrósu. Linda sigraði síðan eins og segir í úrslitum þar sem hún náði 238 pinnum gegn 158.
Karlarnir skiptust á í gær að leiða keppnina fram að úrslitum. Hafþór hafði verið efstur eftir forkeppni en síðan sótti Arnar Davíð á sem og Einar. Endaði það þannig að Einar varð aðeins 6 pinnum fyrir ofan Arnar Davíð eftir milliriðilinn. Ástrós (*leiðrétt) hafði hinsvegar leitt keppnina hjá konum eftir forkeppnina.
Frá vinstri: Arnar Davíð Jónsson KFR, Hafþór Harðarson ÍR og Einar Már Björnsson ÍR
Frá vinstri: Ástrós Pétursdóttir ÍR, Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR og Marika Lönnroth KFR
Lokastaða hjá körlum eftir milliriðill í gær:
Sæti | Nafn | Félag | Forkeppni | Milliriðill | Bónus stig | Samtals | Meðalt |
1 | Einar Már Björnsson | ÍR | 4.012 | 1.596 | 100 | 5.708 | 224,3 |
2 | Arnar Davíð Jónsson | KFR | 3.956 | 1.646 | 100 | 5.702 | 224,1 |
3 | Hafþór Harðarson | ÍR | 4.080 | 1.537 | 80 | 5.697 | 224,7 |
4 | Guðlaugur Valgeirsson | KFR | 3.823 | 1.645 | 80 | 5.548 | 218,7 |
5 | Gunnar Þór Ásgeirsson | ÍR | 3.891 | 1.523 | 60 | 5.474 | 216,6 |
6 | Ísak Birkir Sævarsson | KFA | 3.882 | 1.490 | 60 | 5.432 | 214,9 |
7 | Magnús Sigurjón Guðmundsson | KFA | 3.878 | 1.490 | 40 | 5.408 | 214,7 |
8 | Jón Ingi Ragnarsson | KFR | 3.847 | 1.483 | 40 | 5.370 | 213,2 |
Lokastaða hjá konum eftir milliriðil í gær:
Sæti | Nafn | Félag | Forkeppni | Milliriðill | Bónus stig | Samtals | Meðalt |
1 | Linda Hrönn Magnúsdóttir | ÍR | 3.309 | 1.337 | 80 | 4.726 | 185,8 |
2 | Ástrós Pétursdóttir | ÍR | 3.223 | 1.331 | 120 | 4.674 | 182,2 |
3 | Marika Katarina E. Lönnroth | KFR | 3.268 | 1.261 | 100 | 4.629 | 181,2 |
4 | Nanna Hólm Davíðsdóttir | ÍR | 3.201 | 1.197 | 90 | 4.488 | 175,9 |
5 | Katrín Fjóla Bragadóttir | KFR | 3.159 | 1.138 | 30 | 4.327 | 171,9 |
6 | Hafdís Eva Laufdal Pétursdóttir | ÍR | 3.099 | 1.158 | 60 | 4.317 | 170,3 |
7 | Margrét Björg Jónsdóttir | ÍR | 3.065 | 1.146 | 80 | 4.291 | 168,4 |
8 | Guðný Gunnarsdóttir | ÍR | 2.975 | 1.127 | 0 | 4.102 | 164,1 |