Þórunn Stefanía Jónsdóttir KFR og Aron Fannar Benteinsson ÍA eru Íslandsmeistarar einstaklinga með forgjöf.
Í öðru sæti urðu Sigrún G. Guðmundsdóttir ÍR og Andrés Haukur Hreinsson ÍR og í þriðja sætu urðu Bergþóra Pálsdóttir ÞÓR og Jóhannes Ragnar Ólafsson KR. Óskum við þeim öllum til hamingju með árangurinn.
Þórunn og Aron voru bæði að vinna þennan titil í fyrsta sinn.
Þátttaka í mótinu jókst enn frá fyrra ári, en alls voru 20 konur og 36 karlar skráð í forkeppnina sem fór fram í Egilshöllinni helgina 28.febrúar til 1.mars og efst eftir hana voru Nanna Hólm og Andrés Haukur, eftir það var skorið niður í 12 efstu.
Milliriðillinn var svo leikinn á mánudagskvöldinu 2.mars og að honum loknum leiddu hópinn þau Sigrún G. og Aron Fannar, var þá skorið niður í 6 manns sem léku daginn eftir í undanúrslitum, allir við alla.
Að loknum undanúrslitunum hafði staðan aftur breyst, Þórunn sem hafði verið 6. inn í undanúrslitin spilaði bráðvel og vann 4 af 5 leikjum og jafnaði skorið hjá Sigrúnu þannig að leita þurfti í reglugerðum til að vita hvora ætti að dæma í fyrsta sæti fyrir úrslitaleikinn. Aron spilaði best allra karlanna og vann einnig 4 af 5 leikjum sínum ásamt því að auka forskotið á aðra keppendur en Andrés hafði það af að vinna sig upp í 2. sætið og komst því í úrslitaviðureignina.
Konurnar héldu uppi spennunni í úrslitunum en Þórunn vann fyrsta leikinn en Sigrún næstu tvo, þannig að um hreinan úrslitaleik var að ræða þegar kom að fjórða leik sem Þórunn vann glæsilega með 53 pinna mun. Minni spenna var hjá körlunum, en Aron vann tvo leiki í röð gegn þreyttum Andrési.
Undanúrslit og úrslit kvenna.
Undanúrslit og úrslit karla.