Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR varð í 5. sæti á Evrópumóti landsmeistara ECC á Krít í Grikklandi. Hann varð aðeins 27 pinnum frá 4. sætinu til að tryggja sér rétt til að keppa í undanúrslitum mótsins. Gunnar Þór var með 226,2 í meðaltal í mótinu eftir 28 leiki sem hann lék og vann hann sig upp sætalistann frá því að hann komst í 16 manna úrslit en hann var í 9. sætinu eftir forkeppnina. Komst hann upp í 7. sætið í 16 manna úrslitum og tryggði sér þar með rétt til að keppa í 8 manna úrslitum og endaði eins og áður segir í 5. sæti mótsins. Er þetta í þriðja sinn sem íslenskur keilari kemst í 8 manna úrslit ECC.
Það varð Mike Bergmann frá Hollandi sem sigraði mótið í karlaflokki en hann lagði Svíann Mattias Wetterberg í úrslitum 2 – 1. Wetterberg er Íslendingum að góðu kunnur en hann hefur keppt hér á landi á Reykjavíkurleikunum.
Sue Abela frá Möltu sigraði síðan kvennamótið en hún lagði hina dönsku Mika Guldbaek í úrslitum sömuleiðis 2 – 1 en Mika hafði leitt mótið framan af.
Það er skammt stórra högga á milli hjá Gunnari Þór en hann mun rétt stoppa í einn dag hér heima áður en hann heldur til Dubai með íslenska karlalandsliðinu til keppni á Super World Cup.
Allar upplýsingar um mótið má finna hér.