Í dag fóru fram 16 manna úrslit á Evrópumóti landsmeistara ECC 2021. Gunnar Þór Ásgeirsson sem var í 9. sæti eftir forkeppnina vann sig upp um tvö sæti í dag og tryggði sér þar með sæti í 8 manna undanúrslitum sem fara fram á morgun sunnudag. Þetta er í þriðja sinn sem Íslendingur kemst í 8 manna úrslit á ECC en fyrr höfðu þeir Hafþór Harðarson úr ÍR og Arnar Davíð Jónsson úr KFR náð þeim árangri.
Í dag lék Gunnar Þór 8 leiki á 1.802 pinnum eða 225,25 í meðaltal. Samtals er hann með 5.390 pinna eða 224,6 í meðaltal. Á morgun er lokadagurinn á mótinu en þá verða leiknir 4 leikir og þá skorið niður í 4 manna undanúrslit og loks úrslit. Gunnar Þór er ekki nema 40 pinnum frá 3. sæti og því er sæti í þeim úrslitum ekki úr greipum enn.
Við sendum Gunnari Þór jákvæða strauma út til Krít.
Fylgjast má með mótinu á vefsíðu þess.