Keppni hófst í dag á HM í Abu Dhabi. Keppt var í einstaklingskeppni og voru leiknir 3 riðlar af fjórum. Það voru Stefán Claessen og Skúli Freyr Sigurðsson sem hófu keppni fyrstir Íslendinganna. Spilað var í löngum olíuburði, 43 fet.
Þeir byrjuðu ekki vel og voru í raun alla 6 leikina að strögla. Þegar uppi var staðið var Stefán með 1099 eða 183,17 í meðaltal og Skúli með 1067 eða 177,83 í meðaltal.
Seinni partinn spiluðu svo Arnar Sæbergsson og Hafþór Harðarson. Þeir byrjuðu ágætlega en þegar leið á hallaði undan fæti hjá þeim. Báðir náðu þeir þó að spila rétt yfir 200 í meðaltal, báðir spiluðu þeir 1203 sem gerir 200,5 í meðaltal.
Keppni heldur áfram í einstaklingskeppninni í fyrramálið en þá leika Arnar Davíð Jónsson og Magnús Magnússon. Keppni hefst hjá þeim kl. 5:00 að íslenskum tíma.