Nú er Evrópumót landsmeistara, ECC 2021 hafið en æfingadagurinn fyrir mótið var í gær þriðjudag og gekk Gunnari Þór Ásgeirssyni, sem keppir fyrir Íslands hönd, vel á æfingunni. Hann hefur síðan leik á morgun fimmtudag kl. 10 að grískum tíma eða kl. 07 að íslenskum tíma. Sömu leiktimar eru síðan á föstudag hjá Gunnari Þór. Alls taka þátt í mótinu í ár 31 karlar og 28 konur.
Á vefsíðu mótsins má fylgjast með gengi okkar manns og allar upplýsingar um mótið má finna þar. Hér í Grikklandi er enn grímuskylda og þurfa leikmenn að leika með grímur.
Í dag léku fyrstu keilararnir sína leiki á mótinu og er Rúmeninn Romeo Gagenoiu efstur í karlaflokki en hann byrjaði glæsilega með því að leika 300 leik í fyrsta leik mótsins og 8 leikina alls á 1.915 pinnum eða 239,4 í meðaltal. Þegar þessi frétt er skrifuð eru konurnar að leika sína leiki.
Olían sem notuð er í mótinu er 41 fet og 27,95 mL en sjá má olíugrafið hér.