Björgvin, Mundi og Þorgeir sæmdir Silfurmerki KLÍ

Facebook
Twitter

Í gær, á aðalfundi Þórs, sæmdi Jóhann Ágúst Jóhannsson formaður KLÍ þá Björgvin Helga Valdimarsson formann keiludeildar Þórs, Guðmund Konráðsson varaformann keiludeildar Þórs og Þorgeir Jónsson úr keiludeild Þórs Silfurmerki KLÍ. Tækifærið var nýtt þegar fyrir lág að Íþróttafélagið Þór héldi aðalfund sinn og heimsótti formaður KLÍ norðan fólk, hélt stutta ræðu og sæmdi þá félaga að lokum Silfurmerki KLÍ í viðurvist félaga þeirra.

Tilefni heimsóknar norður var tvíþætt. Annarsvegar að hvetja norðan fólk til dáða við að halda keiludeildinni innan Þórs lifandi. Nauðsynlegt er að skapa þeim aðstöðu í heimabyggð þannig að félagsmenn deildarinnar þurfa ekki að keyra 350 km til að leika heimaleiki sína á Íslandsmóti íþrótta innan ÍSÍ. Fór formaður KLÍ yfir í ræðu sinni að eftir að keiludeildin innan Þórs var stofnuð létu þau fljótt til sín taka. Aðal lið Þórs var frekar fljótt að vinna sig upp í 1. deild karla og ungmennastarfið varð fljótt mjög öflugt. Til að mynda náði deildin að senda tvö ungmenni þau Ólaf Þór Hjaltalín og Guðbjörgu Hörpu Sigurðardóttur í landsliðsverkefni KLÍ. Því miður fækkaði liðum Þórs úr 6 í 2 eftir að keilusalurinn lokaði á Akureyri. Engu að síður halda Þórsarar áfram keppni og eiga heiður skilið fyrir þá einurð sem þeir sýna við að keyra suður til Akraness til að spila sína heimaleiki. Ljóst er þó að ekki er hægt að ætlast til þess af fólki að gera það endalaust og er það því nauðsynlegt fyrir Akureyringa að vera víðsýn í hugmyndum um að skapa aðstöðu fyrir íþróttina í heimabyggð. Líta má til þess bæði innan félags og bæjar hvað ÍA og Akranessbær hafa gert í sínum málum. KLÍ hefur boðið alla þá aðstoð sem það getur veitt við að vinna að málinu og má ætla að komið hafi verið á góðum samskiptum við aðalstjórn og starfsfólks Þórs í málinu.

Á aðalfundi Þórs kom fram hjá Inga Björnssyni formanni Þórs að almennt væri erfið staða innan félags vegna aðstöðumála og lýsti hann vonbrygðum með að samkvæmt áætlun Akureyrar væri ekki fyrirhuguð uppbygging á svæðinu á næstunni eins og þeir telja að til þurfi. Á fundinum var þó Eva Hrund Einarsdóttir (D) formaður Frístundaráðs Akureyrar og lýsti hún áhuga á samtali við Þór um þeirra málefni og var því fagnað af aðilum. Hvatti formaður KLÍ bæinn til að skoða þessi mál og eins og áður segir líta til Akraness varðandi hvernig þar er staðið að málum.

Í lok ræðu formanns KLÍ kallaði hann upp þá Björgvin, Munda og Þorgeir. Björgvin er núverandi formaður deildarinnar og hefur m.a. setið í stjórn KLÍ sem og nefndum. Mundi er varaformaður deildarinnar og hefur verið liðsmaður Þórs frá byrjun. Hefur hann einnig lagt mikið á sig við að halda Þórs liðum gangandi þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þorgeir rak salinn á Akureyri eins og menn þekkja og á mikinn þátt í því hvernig deildin innan Þórs varð. Á stjórnarfundi KLÍ á dögunum var því samhljóða ákveðið að veita þessum þrem heiðursmönnum Silfurmerki KLÍ fyrir þeirra framlag til keilunnar á Íslandi.

Það er von KLÍ að með þessu sé Þórsurum veittur innblástur til frekari verka á Akureyri. Aðalstjórn Þórs og Reimari Helgasyni framkvæmdastjóra Þórs eru færðar þakkir fyrir að taka á móti KLÍ á aðalfundi þeirra.

Nýjustu fréttirnar