Stjórn KLÍ hefur útnefnt þau Dagnýju Eddu Þórisdóttur úr Keilufélagi Reykjavíkur og Hafþór Harðarson úr ÍR sem keilara ársins 2020. Er þetta í 6. sinn sem Dagný hlýtur þessa útnefningu og í 7. sinn hjá Hafþóri.
Þrátt fyrir að Covid hafi leikið íþróttaiðkun ansi grátt á árinu ber þó að fagna og verðlauna fyrir það sem gert hefur verið i ár.
Dagný Edda var til dæmis með besta meðaltal allra kvennkeilara í deildarkeppninni á árinu og varð einnig stigameistari tímabilsins 2019 til 2020. Dagný Edda fór fyrir liði sínu KFR Valkyrjum og sigraði Bikarkeppni KLÍ 2020 og urðu þær einnig Deildarmeistarar 2020. Dagný Edda varð einnig Reykjavíkurmeistari kvenna nú á haustmánuðum.
Hafþór Harðarson vann einnig bikartitilinn 2020 með liði sínu ÍR PLS og urðu þeir einnig deildarmeistarar 2020. Hápunktur Hafþórs varð án efa að sigra sterkasta mót Reykjavíkurleikanna sem haldið hefur verið á Íslandi til þess. Lagði hann þar í úrslitum Danielle McEwan sem er atvinnukeilari frá Bandaríkjunum.