QubicaAMF mótið – Þriðji keppnisdagur

Facebook
Twitter

Þá er þriðja keppnisdegi lokið QubicaAMF Bowling World Cup, heimsbikarmóti einstaklinga í keilu sem nú fer fram í Krasnoyarsk í Síberíu í Rússlandi. Spilamennskan er enn mjög há og fyrsti 300 leikurinn hjá konunum var spilaður í dag og áttundi fullkomni leikur mótsins.

Arnar Sæbergsson keppti kl. 20:00 að staðartíma í dag, eða kl. 12:00 á hádegi að íslenskum tíma. Arnar átti frábæran dag og spilaði samtals 1.488 í þessum 6 leikjum eða 248 að meðaltali í leik. Leikir Arnars í dag voru 203, 256, 223, 277, 280 og 249 og hann spilaði sig upp um 15 sæti og er nú kominn í 30. sæti. Sjá leiki Arnars og stöðuna í karlaflokki. Arnar spilar síðustu leikina í forkeppninni kl. 16:00 að staðartíma sem er kl. 8:00 að íslenskum tíma.

Guðný Gunnarsdóttir hóf keppni kl. 8:00 að staðartíma eða kl. 24:00 á miðnætti í nótt að íslenskum tíma. Hún náði ekki að fylgja eftir frábærum degi í gær, en spilaði samt ágætlega með samtals 1.127 pinna. Leikir hennar í dag voru 209, 187, 155, 223, 183 og 170. Guðný er nú í 32. sæti með samtals 3.546 og 197,0 að meðaltali í 18 leikjum. Sjá leiki Guðnýjar og stöðuna í kvennaflokki Guðný spilar síðustu 6 leikina í forkeppninni kl. 12:00 að staðartíma á morgun fimmtudaginn 21. nóvember, eða kl. 4:00 að íslenskum tíma.

Peter Hellström Svíþjóð eykur enn forystuna í karlaflokki og er nú með samtals 4.579 pinna eða 254,39 að meðaltali í 18 leikjum. Heimamaðurinn Alexei Parsukov spilaði 1.515 í dag og er kominn í 2. sæti með 4.397 pinna, Mats Maggi Belgíu er í 3. sæti með 4.359 pinna og Bodo Konieczny frá Þýskalandi er í 4. sæti með 4.333 pinna. Í dag voru spilaðir þrír 300 leikir í karlaflokki. Fyrstur var Or Aviram Ísrael, síðan kom Mykhaylo Kalika Úkraínu og loks Chis Sloan Írlandi. Eins og staðan er nú er meðaltalið í karlaflokki 214,49 og það þarf 228,72 pinna að meðaltali í leik til að komast áfram í úrslitin. Sjá stöðuna í karlaflokki 

Í efstu tveimur sætunum í kvennaflokki eru tveir fyrrum mótsmeistarar. Caroline Lagrange frá Kanada spilaði fyrsta 300 leikinn hjá konunum í morgun og er ennþá efst í kvennaflokki með samtals 4.449 pinna eða 247,17 að meðaltali í 18 leikjum. Í 2. sæti er nú tvöfaldi mótsmeistarinn Aumi Guerra frá Dóminikanska lýðveldinu með 4.287 pinna. Danielle McEwan frá Bandaríkjunum er komin upp í 3. sætið með 4.244 og Cheri Tan frá Singapore er í 4. sæti með samtals 4.179. Eins og er þá er meðaltalið í kvennaflokki 196,87 og það þarf 208,50 að meðaltali í leik til að komast áfram í 24 manna úrslitin. Sjá stöðuna í kvennaflokki

 

Dagskrá mótsins:
Föstudagur 15. og laugardagur 16. nóvember – Koma
Sunnudagur 17 . nóvember  – Æfingar og setningarathöfn
Mánudagur 18. nóvember – Fyrstu 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 12:00 (4:00) og Guðný keppir í holli B kl. 20:00 (12:00)
Þriðjudagur 19. nóvember – Aðrir 6 leikir, Arnar keppir í holli A kl. 8:00 (24:00) og Guðný keppir í holli B kl. 16:00 (8:00)
Miðvikudagur 20. nóvember – Þriðju 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 8:00 (24:00) og Arnar keppir í holli A kl. 20:00 (12:00)
Fimmtudagur 21. nóvember – Fjórðu 6 leikir, Guðný keppir í holli B kl. 12:00 (4:00) og Arnar keppir í holli A kl. 16:00 (8:00)
Föstudagur 22. nóvember – Efstu 24 keppendurnir spila 8 leiki, Konur kl. 8:00 og karlar kl. 11:30
Laugardagur 23. nóvember – Efstu 8 keppendurnir spila 8 leiki kl. 9:00 og efstu 3 keppa til úrslita kl. 14:00

Tíminn í Krasnoyarsk er GMT + 8 klst þannig að þegar klukkan þar er 24:00 á miðnætti er hún 16:00 á Íslandi. Sjá World Clock

Hægt verður að fylgjast með gangi keppninnar á heimasíðu mótsins og Facebook síðunni og boðið verður upp á bæði beina útsendingu á You tube rás Qubica AMF (live streaming) og að fylgjast með skori í leikjunum (On-line scoring) á heimasíðu mótsins

Nýjustu fréttirnar