Guðrún Soffía Guðmundsdóttir ÍR spilaði best allra keppenda í kvennaflokki í dag og er efst eftir forkeppnina á Íslandsmóti einstaklinga í keilu. Hún spilaði 1.231 í 6 leikjum eða 205,17 að meðaltali, setti persónulegt met og bætti besta árangur um 89 pinna, en leikir hennar voru 234, 181, 191, 247, 194 og 184. Dagný Edda Þórisdóttir KFR heldur 2. sætinu, Linda Hrönn Magnúsdóttir ÍR er komin upp í 3. sætið og í 4. sæti er Guðný Gunnarsdóttir ÍR sem var efst eftir fyrri daginn.
Guðrún Soffía er nú í 1. sæti með samtals 2.238 pinna og 186,5 að meðaltali í 12 leikjum. Dagný Edda spilaði 1.133 í dag og er 6 pinnum á eftir með samtals 2.232 pinna í 2. sæti eða 186 að meðaltali. Linda Hrönn spilaði 1.103 í dag er með samtals 2.184 eða 182 að meðaltali og Guðný spilaði 1.024 í dag og er með samtals 2.142 eða 178,5 að meðaltali. Ragnheiður Þorgilsdóttir ÍFH sem byrjaði vel í gær spilaði 960 í dag og féll úr 3. sæti í 5. sæti og er nú með samtals 2.050 eða 170,83 að meðaltali. Ástrós Pétursdóttir ÍR spilaði 1.061 í dag og hækkaði sig úr 9. sæti í 6. sæti með samtals 2.023 eða 168,58 að meðaltali. Í 7. sæti er Ragna Guðrún Magnúsdóttir KFR með 2.006, Hafdís Pála Jónasdóttir KFR er í 8. sæti með 1.990, Jóna Gunnarsdóttir KFR er í 9. sæti með 1.975, Sigríður Klemensdóttir ÍR er í 10. sæti með 1.925, Bergþóra Rós Ólafsdóttir ÍR er í 11. sæti með 1.833 og Sigurlaug Jakobsdóttir ÍR er í 12. sæti með 1.827. Bára Ágústsdóttir KFR varð að hætta keppni vegna veikinda og það var því aðeins Anna Kristín Óladóttir ÍFH sem féll úr keppni eftir forkeppnina. Staðan eftir forkeppni í kvennaflokki
Keppni í milliriðli fer fram í Egilshöllinni á morgun, mánudaginn 4. febrúar og hefst kl. 19:00. Í milliriðli spila efstu 16 karlarnir og efstu 12 konurnar 6 leiki og komast 8 efstu kepppendurnir úr hvoru flokki áfram í undanúrslit. Spilað verður í löngum olíuburði á vinstri braut og stuttum olíuburði á hægri braut. Verð í milliriðilinn er kr. 5.000.
Keppni í undanúrslitum fer fram í Egilshöllinni þriðjudaginn 5. febrúar og hefst kl. 19:00. Þar keppa 8 efstu karlarnir og efstu 8 konurnar einfalda umferð allir við alla með bónusstigum fyrir unninn leik. Áfram verður spilað í löngum olíuburði á vinstri braut og stuttum olíuburði á hægri braut. Verð í undanúrslitin er kr. 5.500.
Efstu keppendurnir í hvorum flokki keppa síðan til úrslita um titilinn Íslandsmeistari einstaklinga og ávinna sér einnig keppnisrétt á Evrópubikarmóti einstaklinga ECC2013 sem haldið verður í Bratislava í Slóvakíu dagana 21. – 28 október 2013
Sjá nánar í auglýsingu og reglugerð um Íslandsmót einstaklinga Stutti olíuburðurinn í mótinu er 36 fet Järven og langi olíuburðurinn er 44 fet Älgen.