Nú er þriðji keppnisdagur runninn upp á QubicaAMF World Cup og keppendur byrjaðir á þriðju 5 leikjablokkinni í forkeppni mótsins. Magnús hóf leik í fyrsta holli dagsins kl. 8:00 að staðatíma og spilaði samtals 1.019, sem gerir 203,8 að meðaltali í leik. Hann er nú i 16. sæti með 211,47 að meðaltali í heildina eftir 15 leiki og með góðri spilamennsku á morgun kemst hann áfram í 24 manna úrslitin. Magnús á ennþá hæsta leik mótsins í karlaflokki 283.
Guðný byrjaði frábærlega í dag með 246 og 213 í tveimur fyrstu leikjunum og var komin með 459 eftir tvo leiki. Þá þurfti hún að fara á neðsta settið, þar sem aðstæður hafa reynst keppendum erfiðar og náði sér ekki á strik eftir það. Spilaði 939 í heildina í dag, eða 187,8 að meðaltali í 5 leikunum og er þetta besti dagurinn hingað til. Guðný er núna í 46. sæti með 179,9 að meðaltali í 15 leikjum.
Þegar fyrri riðillinn hjá konunum er búinn að spila í dag hefur Shanya Ng frá Singapore tekið forystuna með góðri spilamennsku í morgun og er með 236,73 að meðaltali í 15 leikjum. Önnur er Kirsten Penny Englandi með 227,47 og þriðja er Aumi Guerra frá Dóminíkanska lýðveldinu sem er nú með 226,8 að meðaltali. Eins og staðan er þarf í kringum 197 meðaltal til að tryggja sér sæti í 24. manna úrslitum í kvennaflokki. Julia Lam Macau er nú í 24. sæti með 196,1 að meðaltali og fjórum pinnum á eftir henni er Yuka Ooshuma Japan með 195,9.
Nú er síðasta hollið hjá körlunum að spila og miklar breytingar á efstu mönnum. James Gruffman Svíþjóð var í forystu eftir fyrsta riðilinn í morgun, en hefur nú fallið niður í 5. sætið. Marshall Kent Bandaríkjunum er kominn í efsta sætið með 230,2 að meðaltali og næstur á eftir honum kemur Hareb Al Mansoori frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum með 228,2 og þriðji er Andres Gomez Kolumbíu með 225,4. Enn þarf tæplega 210 meðaltal til að tryggja sér sæti í 24. manna úrslitum í karlaflokki. Í 24. sæti er Norður-Írinn Tony O’Hare með 209,3 að meðaltali og næstur á eftir honum kemur Jimmy Ravez frá Belgíu með 208,2.
Á morgun, fimmtudaginn 29. nóvember, spilar Guðný í seinna holli kvenna sem hefur keppni kl. 11:30 að staðartíma (kl. 10:30 að íslenskum tíma), en Magnús spilar í síðasta holli forkeppinnar sem hefur keppni kl. 21:00 annað kvöld.
Sjá nánar heimasíðu mótsins http://www.qubicaamf.com/World-Cup/2012-Wroclaw-Poland.aspx
og Facebook síðuna https://www.facebook.com/QubicaAMFWorldCup