Evrópumót karla 2025 fer fram nú í júní og hefur karlalandslið Íslands verið valið.
Í ár fer EM karla fram í dönsku borginni Álaborg, í keilusalnum Løvvang Bowling Center. 31 land hefur staðfest þátttöku á mótinu og að sjálfsögðu er Ísland með. Eftir að Mark Heathorn hætti sem yfirþjálfari landsliða Íslands í september síðastliðinn tók Skúli Freyr Sigurðsson við keflinu og það var í hans höndum að velja íslenska landsliðshópinn fyrir Evrópumótið.
Þrír nýjir leikmenn koma inn í landsliðið frá síðasta Evrópumóti, en þeir Arnar Davíð Jónsson, Guðlaugur Valgeirsson og Hafþór Harðarson voru allir með á EM 2023 í Frakklandi þar sem liðið náði 6. sæti í liðakeppninni. Gunnar Þór Ásgeirsson snýr aftur í karlalandsliðið eftir frábært tímabil í íslensku deildinni í vetur, en hann var síðast í hópnum í Finnlandi 2022.
Inn í hópinn koma svo tveir nýliðar, þeir Ísak Birkir Sævarsson og Mikael Aron Vilhelmsson en saman unnu þeir Íslandsmótið í tvímenning síðasta haust. Mikael varð einnig sigurvegari Reykjavíkurleikanna ásamt því að vinna fyrstu Úrvalsdeildina í keilu og er nýkrýndur Íslandsmeistari karla. Mikael er aðeins 18 ára gamall en hefur sýnt og sannað að hann eigi heima í karlalandsliðinu. Ísak Birkir, sem er 21 árs, flutti til Svíþjóðar fyrir tímabilið og hefur spilað vel með liði sínu Höganäs BC í næsteftstu deild í Svíþjóð. Ísak kom til Íslands í mars til að taka þátt í Íslandsmótinu, þar sem hann varð í 2. sæti eftir að hafa tapað fyrir Mikael í úrslitaleiknum.
Hópurinn sem Skúli valdi lítur þá svona út:
- Arnar Davíð Jónsson IS Göta/ KFR
- Guðlaugur Valgeirsson Höganäs BC/ KFR
- Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR
- Hafþór Harðarson ÍR
- Ísak Birkir Sævarsson Höganäs BC/ ÍA
- Mikael Aron Vilhelmsson KFR
Mótið fer fram 6-15. Júní og er keppt í einstaklings-, tvímennings-, þrímennings- og 5 manna liðakeppni. Svo fara 12 bestu þjóðirnar á mótinu á Heimsmeistaramót í Hong Kong síðar á árinu.
Heimasíða mótsins má finna hér