Arnar Davíð Jónsson keilari úr KFR og Höganäs BC mun í byrjun apríl taka þátt í World Series of Bowling á PBA túrnum sem fram fer í Wauwatosa, Milwaukee í Bandaríkjunum en PBA túrinn eða bandaríska atvinnumannamótaröðin er sterkasta mótaröðin sem finnst í keilu.
Þetta verður í annað skipti sem Arnar Davíð tekur þátt í World Series en hún virkar þannig að yfir 2 vikur er keppt um 4 titla. Hafþór Harðarson var fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í World Series en það gerði hann árið 2012.
Arnar þarf að komast í gegnum forkeppni fyrir World Series til að fá að taka þátt í ár. Færri komast að en áður en um það bil 90 keilarar munu keppa um 10 sæti til að komast að í aðalmótunum.
Arnar spilar 8 leiki í forkeppninni og ef hann kemst áfram liggur ljóst fyrir að hann mun spila í þessum 4 mótum en þau virka þannig að hann spilar 60 leiki á 6 dögum á þremur mismunandi olíuburðum og ef vel gengur kemst hann áfram í fjórða mótið sem tekur við eftir þessa 60 leiki.
Það verður spennandi að fylgjast með framgöngu Arnars en vonandi kemst hann áfram úr forkeppninni og fær tækifæri á að spila meðal þeirra bestu í heiminum.