Í dag fór fram 29. ársþing KLÍ en það var að þessu haldið í ÍR heimilinu Skógarseli. Fyrir lá að nýr formaður tæki við sambandinu og ein í kjöri til formanns á þessu þingi og því sjálfkjörin var Jóna Guðrún Kristinsdóttir úr KFR. Er hún því fyrsta konan sem gegnir embætti formanns KLÍ í 30 ára sögu þess.
Auk hennar voru kjörin í stjórn þau Guðmundur Sigurðsson ÍA til eins árs í stað Einars Jóels, Vilhelm Einarsson KFR og Gunnar Þór Ásgeirsson ÍR voru kjörnir til tveggja ára og varamenn í eftirfarandi röð voru kjörin Helga Hákonardóttir Ösp, Guðjón Júlíusson KFR og Svavar Þór Einarsson ÍR. Fyrir í stjórn er Geirdís Hanna Kristjánsdóttir ÍR.
Af þessu má lesa að upp er komin sú skemmtilegu staða að í stjórn KLÍ næsta árið sitja tvær konur sem aðalmenn og ein sem vara og þarf að leita ansi mörg ár til baka til að finna jafn margar konur í stjórn KLÍ.
Þingforseti var sem fyrr Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ og stýrði hann þinginu röggsemi sem fyrr og sá hann til þess að dagskrá þings færi eftir settum lögum og eftir hefðbundnum fundarsköpum. Þingritun var í höndum Valgerðar Rúnar Benediktsdóttur formanns ÍR-keiludeildar. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ heiðraði sambandið með því að koma á þingið og hélt hann smá erindi með hvatningu til okkar um að halda okkar góðu starfi áfram.
Farið var yfir reikninga sambandsins og í þeim kemur fram að niðurstaða ársins 2021 var með ágætum en sambandið skilar af sér hagnaði upp á 2,2 milljónir rúmlega.
Af málum sem lágu fyrir þinginu í ár má nefna að siðareglurnar voru samþykktar með tillögu til stjórnar að laga reglugerð um Aga- og úrskurðarnefnd þannig að þau mál sem teljast mögulega vera brot á siðareglum okkar verði hægt að vísa til nefndarinnar og hún þá tekið ákvarðanir í þeim málum.
Unglingamálin voru mikið rædd og lagt til og samþykkt betri skilgreiningar á aldursflokkum og þar af leiðandi Íslandsmetum í ungmennaflokkum. Megin línan er að miða flokkaskiptingar við afmælisár en þar sem við erum vetrarsport þá var lögð tillaga og hún samþykkt að vísa því til stjórnar hvort miðað væri við 1. júlí eða 1. september eins og EBF reglur kveða á um.
Magnús Reynisson úr KR var sæmdur Silfurmerki KLÍ fyrir störf hans í þágu keilusamfélagsins. Magnús hefur setið í stjórnum og nefndum KLÍ sem og sinnt störfum í félagi sínu. Er hann því virkilega vel að þessum heiðri kominn að vera sæmdur Silfurmerki sambandsins í ár.
Þinggerð verður birt hér á vefnum þegar hún verður klár en nálgast má gögn þingsins hér.
Jóhann Ágúst Jóhannsson fráfarandi formaður KLÍ og Jóna Guðrún Kristinsdóttir nýkjörin formaður og þá fyrst kvenna hjá Keilusambandinu
Ásgrímur Helgi Einarsson KFR gerir grein fyrir störfum kjörbréfanefndar
Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ í pontu
Þórarinn Már Þorbjörnsson framkvæmdastjóri KLÍ fer yfir reikninga sambandsins
Magnús Reynisson KR var sæmdur Silfurmerki KLÍ fyrir störf sín í þágu keilusamfélagsins
Jóna Guðrún Kristinsdóttir nýkjörin formaður KLÍ slítur þingi