Í morgun lék Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR fyrstu leiki sína á Evrópumóti landsmeistara á Krít. Leiknir voru 8 leikir í fyrri leikjablokk undankeppninnar en sú seinni fer fram í fyrramálið á föstudegi og hefst keppni kl. 7 að morgni á íslenskum tíma. Gunnar byrjaði fyrstu tvo rammana á að opna en skellti svo í lás ef svo má segja og fékk 205. Næstu leikir voru síðan nokkuð góðir, 225 – 226 – 213 og 278. Var hann í 3. sæti síns riðils eftir þá leiki en þá kom einn verri leikur á erfiðu brautarpari 181. Hann lokaði svo deginum með 215 og 207, samtals 1.754 eða 219,2 í meðaltal.
Gunnar er því samanlagt í 8. sæti eftir fyrri daginn en 16 efstu komast áfram í milliriðil keppninnar. Sem stendur er meðaltalið í 16. sætinu 207,2 og gerum við okkur góðar vonir að Gunnar Þór komist í milliriðilinn.
Sem stendur er Rúmeninn Romeo Gagenoiu í efsta sætinu með 239,4 í meðaltal en hann hóf mótið með látum og náði fullkomnum leik í fyrsta leik mótsins. Hjá konunum er það hin danska Mika Guldbaek sem er í efsta sætinu með 1.758 pinna eða 219,8 í meðaltal
Hægt er að fylgjast með mótinu á vefsíðu þess.
Gunnar Þór Ásgeirsson við opnunarathöfn ECC 2021