Arnar Davíð Jónsson KFR / Höganäs í 2. sæti á ETB Brunswick Open 2021

Facebook
Twitter

Arnar Davíð Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur varð um helgina í 2. sæti á Brunswick Open 2021 mótinu í Wittelsheim í Frakklandi en mótið er hluti af evrópsku mótaröðinni í keilu.

Arnar Davíð, sem kom sér upp í 1. sætið fyrir lokaúrslitin laut í lægra haldi gegn Svíanum Carl Eklund í tveim leikjum 245 gegn 244 og svo 213 gegn 258. Engu að síður stórglæsilegur árangur Arnars Davíðs en eins og kunnugt er sigraði hann mótaröðina 2019 fyrstur Íslendinga og varð 5. í kjöri Íþróttafréttamanna það árið fyrir Íþróttamann ársins.

Arnar Davíð varð í 26. sæti forkeppni mótsins með 1.411 seríu eða 235,17 í meðaltal og tryggði sig þar með inn í úrslitakeppnina en þar er Arnar Davíð alla jafna í essinu sínu og vann hann sig jafnt og þétt upp listann. Í úrslitastigi 1 af 5 vann Arnar Davíð sig upp í 17. sæti með 220,5 í meðaltal eftir 4 leiki. Í úrslitastigi 2 vann hann sig enn ofar og endaði í 7. sæti með 247,75 í meðaltal eftir 4 leiki. Arnar Davíð fór niður í 8. í úrslitastigi 3 með 232,0 í meðaltal en það var síðasta sætið sem gaf rétt á loka úrslitastiginu en þar gerði Arnar Davíð sér lítið fyrir og kom sér í efsta sætið með frábærri spilamennsku með 242,0 í meðaltal í 7 leikjum.

Efstu tveir léki svo til úrslita í mótinu og þar hafði eins og áður sagði Svíinn Carl Eklund sigur úr bítum.

Stórglæsilegur árangur Arnars Davíðs en skammt er á milli móta nú þegar mótaröðin virðist vera að komast í eðlilegt horf en næsta mót Opna norska mótið hefst um komandi helgi og mun Arnar Davíð keppa seinni helgina á því móti.

Nýjustu fréttirnar