Atvik átti sér stað í undanúrslitum 1. deildar karla á dögunum. Áhorfandi sem er félagsmaður innan keilunnar var þar sýnilega ölvaður að fylgjast með viðureignunum sem þá voru í gangi. Á ákveðnum tímapunkti var reynt að biðja viðkomandi um að gæta að hegðun sinni og á endanum reynt að vísa honum frá leikstað vegna truflunar á leikjum kvöldsins. Gekk það ekki eftir og kom til orðaskipta viðkomandi við bæði leikmenn, stjórnarmann KLÍ og starfsmann KLÍ. Fór það meðal annars svo að viðkomandi ýtti við stjórnarmanni KLÍ. Á endanum var viðkomandi vísað frá leikstað með valdi af öðrum áhorfenda.
Skýrslur bárust stjórn KLÍ og aganefnd vegna málsins. Þar sem reglugerðir okkar og lög ná ekki yfir áhorfendur heldur aðeins leikmenn í keppni er ekki hægt að taka málið fyrir innan okkar raða. Viðkomandi aðili hefur þó sent póst til stjórnar og fleiri og beðist afsökunar á framferði sínu umrætt kvöld og ber að virða það.
Stjórn KLÍ vill hins vegar koma því á framfæri að KLÍ frábiður sér framkomu af þessu tagi á hvaða móti sem er innan vébanda KLÍ hvort sem um áhorfanda eða aðra ræðir. Neysla áfengis á ekki samleið með íþrótt og er í raun algjörlega andstætt lögum og reglum ÍSÍ. Fólk verður að geta fengið að stunda keilu sem íþrótt án þess að eiga hættu á að áhorfendur eða aðrir séu að trufla í ölæði.
Stjórn KLÍ hefur hafið vinnu við að útbúa reglur og uppfæra reglugerðir sambandsins til samræmis við önnur sérsambönd innan ÍSÍ til að get tekið á svona málum í framtíðinni.
Stjórn KLÍ