Tilkynning frá stjórn KLÍ vegna Íslandsmóts liða 2020 til 2021

Facebook
Twitter

Stjórn KLÍ ákvað 12. janúar s.l. að keppni héldi áfram á Íslandsmóti liða 2020 til 2021 með breyttu sniði eftir að samkomubanni og banni við íþróttaiðkun vegna farsóttar var aflétt. Ljóst þótti þá að eftir um tæplega 4 mánaða stopp væri skammur tími til að klára deildarkeppni eins og reglugerð kveður á um. Var því ákveðið að helminga mótið í ár til að geta klárað það á skikkanlegum tíma í vor. Var það tilkynnt með frétt á vef KLÍ að kvöldi 12. janúar: https://www.kli.is/2021/01/12/keppni-fer-aftur-af-stad/

Beiðni um umræður

Mánudeginum eftir eða þann 18. janúar kom áskorun til stjórnar frá 1. deildarliði þar sem segir að fyrirliðar 5 liða í 1. deild óskuðu eftir opnum umræðum um það hvernig klára ætti deildarkeppnina þetta tímabil. Megin inntak í áskoruninni var að fá umræður hjá liðum og þá m.a. vegna þess að aðilum þótti ekki við hæfi að skikka lið til að mæta til deildarkeppni þetta tímabilið vegna smithættu vegna farsóttar.

Eftir samtöl stjórnarmanna KLÍ við nokkra fyrirliða í öllum deildum var ljóst að færri en þessir 5 væru að óska eftir því að breyta ákvörðun stjórnar frá 12. janúar. Þvert á móti kom fram krafa um að halda mótinu áfram eins og ákvörðun stjórnar frá 12. janúar kvað á um. Þess fyrir utan barst stjórn KLÍ áskorun frá þrem aðildarfélögum KLÍ um að verða ekki við þessari beiðni 1. deildarliðanna heldur halda keppni áfram eins og reglugerðir og samþykkt stjórnar KLÍ segja til um.

Sóttvarnir

Vert er að benda á að KLÍ hefur ítarlegar sóttvarnarreglur sem birtar eru með áberandi hætti á vefsíðu sambandsins. Eru þær reglur teknar út af ÍSÍ og sóttvarnaryfirvöldum og má KLÍ ekki halda úti starfsemi nema þær reglur séu samþykktar af áðurnefndum aðilum. Þær eru gerðar með því markmiði að auka öryggi iðkenda i íþróttinni. Vert er einnig að benda á og ítreka að besta sóttvörnin er að hver passi sig og fari eftir þeim leiðbeiningum sem eru gefna úr.

Viðbót við ákvörðun stjórnar frá 12. janúar s.l.

Ein megin röksemd þeirra sem óska eftir því að deildarkeppnin verði blásin af, hvort sem að þeir keppi sem vilja en engin falli / fari upp um deild, er að þar sem tímabilið er helmingað sé helmingi minni tækifæri til að halda sér í deild bæði vegna fjölda leikja sem og takmarkaðs tíma til æfinga þar sem fjöldatakmarkanir eru á æfingum og í almennum sal.

Að teknu tilliti til alls þessa sem á undan hefur verið rætt kom fram tillaga um að halda mótinu áfram eins og ákvörðun frá 12. janúar segir en að gera eina breytingu varðandi hvernig lið færast upp eða niður um deild. Ákvörðunin, sem var samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2, er þannig að neðsta lið deildar fellur, efsta lið næstu deildar fyrir neðan fer upp en liðið sem endar í næst neðsta sæti keppir í umspili við næst efsta lið deildarinnar fyrir neðan um laust sæti í efri deild. Það er sama fyrirkomulag og var hjá kvennadeildum fyrir 2 árum. Tímasetning umspilsleikja er ekki ákveðin hvort þeir fari fram strax að loknu Íslandsmóti liða eða í lok sumars / byrjun hausts fyrir deildarkeppni næsta tímabils.

Niðurstöður

  • Stjórn KLÍ ákvað því í gærkvöldi að breyta reglugerð um Íslandsmót liða til bráðabirgða fyrir tímabilið 2020 til 2021, hefur mótsreglum því verið breytt á vefnum en þær má sjá hér. Stendur sú ákvörðun stjórnar KLÍ og skal deildarkeppni KLÍ fara fram sem og önnur dagskrá KLÍ með ákvörðun stjórnar KLÍ 28. janúar 2021.
  • Stjórn KLÍ ítrekar sóttvarnarreglur sambandsins og hvetur iðkendur í keilu til að kynna sér þær og fara eftir í einu og öllu.
  • Stjórn KLÍ bendir á að skv. 10. gr. laga KLÍ liður d fer stjórn KLÍ með regluvald sambandsins. Stjórn fer einnig með framkvæmdavald sambandsins milli þinga, 4. og 9. gr. laga KLÍ.

Nýjustu fréttirnar