Hvað verður um keppnistímabilið okkar?

Facebook
Twitter

Stjórn KLÍ ræddi á stjórnarfundi í gær hvaða möguleikar eru í stöðunni varðandi það að klára keppnistímabilið 2020 – 2021. Staðan núna er sú að við höfum þurft að stoppa allt keppnishald og flestar æfingar frá því í október á síðasta ári og er þetta stopp orðið mun lengra en það sem kom fyrst í vor.

Samkvæmt dagskrá þá hefði átt að leika 13. umferð í þessari viku en þegar keppnishald var stöðvað var búið að leika 3 til 5 umferðir, mismunandi eftir deildum og eða liðum. Það er því ljóst að tækifæri okkar til að klára deildarkeppni og önnur mót fara að verða af skornum skammti sé ætlunin að klára tímabilið. Á þriðjudaginn í næstu viku á að taka við ný reglugerð Heilbrigðisráðuneytis og alls óljóst hvað í henni mun felast.

Umræða innan stjórnar er á þann veg, þótt ekkert sé ennþá ákveðið, er að helminga mótið í deildarkeppni niður þar sem við á eða spila 2 hringi í stað þriggja þar sem það á við. Rökin með þeirri ákvörðun er að geta klárað keppnishald með einhverju móti bæði í deildarkeppni, bikarkeppni og svo Íslandsmóti einstaklinga sem er á dagskrá í vor eða sumarbyrjun. Ef stefnt verður að því að klára deildarkeppni að fullu er ljóst að leika þarf tvisvar til mögulega þrisvar í viku til að vinna upp tapaðar umferðir. Efasemdir eru uppi um að iðkendur fáist til að leika svo ört á komandi mánuðum sem og mundi það rýra möguleika okkar á að halda önnur mót s.s. einstaklingsmót, tækifæri afrekshópa til að fara utan í Evróputúrinn o.sv.fr. Samt er stefnt að því að halda úrslitakeppni í 1. deildum karla og kvenna.

Stjórn KLÍ ákvað að hittast aftur á fundi á þriðjudaginn kemur þegar ljóst er hver verða næstu skref í samkomutakmörkunum vegna farsóttar og ræða málið frekar.

Ef af verður að tillögunni um að helminga umferðir í deildum þá verða deildirnar leiknar eftirfarandi:

1. deild kvenna
14 umferðir í stað 21. – 3 umferðum er lokið

2. deild kvenna
10 umferðir í stað 20 – 4 umferðum er lokið

1. deild karla
9 umferðir í stað 18 – 3 umferðum er lokið

2. deild karla
9 umferðir í stað 18 – 4 umferðum almennt lokið

3. deild karla
14 umferðir í stað 21. – 4 umferðum lokið

Af þessu leiðir að það mun verða ósanngirni í umferðum vetrar s.s. ákveðin lið fá ekki sína heimaleiki. Rétt er að áminna að ef þetta verður gert þá er það vegna þessara aðstæðna sem við erum í og eru í eðli sínu ósanngjarnar.

Nýjustu fréttirnar