Vegna Covid ástandsins þurfti að fresta þingi sambandsins sem fara átti fram í maí í vor en nú er boðað til 27. ársþings KLÍ laugardaginn 22. ágúst kl. 12. Verður þingið haldið í KR heimilinu Frostaskjóli. Alls eiga 34 fulltrúar atkvæðarétt skv. lögum sambandsins og skiptast þeir þannig:
- ÍR 10 fulltrúar
- KFR 7 fulltrúar
- KFA 5 fulltrúar
- KR 3 fulltrúar
- Þór 3 fulltrúar
- Ösp 3 fulltrúar
- ÍBR 1 fulltrúi
- ÍA 1 fulltrúi
- ÍBA 1 fulltrúi
Á þingi verða venjuleg þingstörf skv. lögum og m.a. kosið um formann ásamt 2 aðalmönnum til tveggja ára ásamt þrem varamönnum.
Núverandi formaður Jóhann Ágúst Jóhannsson ÍR gefur kost á sér til áframhaldandi setu og einnig gefur Hafþór Harðarson ÍR sem gegnt hefur varaformannsembætti áfram kost á sér til næstu tveggja ára. Eitt framboð hefur komið fram til aðalmanns til tveggja ára en það er Skúli Freyr Sigurðsson KFR.
Einar Jóel Ingólfsson ÍA á eitt ár eftir af sínu kjörtímabili en þar sem Sesselja Unnur Vilhjálmsdóttir KFR sagði sig frá stjórn í upphafi árs þarf að kjósa um einn aðalmann til eins árs í hennar stað. Ingi Geir Sveinsson ÍA hefur gefið kost á sér til eins árs. Verið er að taka saman framboð til varamanna en ljóst er að Stefán Claessen ÍR gefur ekki kost á sér áfram í bili.
Fyrir þingi liggja fram tvær lagabreytingatillögur. Önnur tillagan er að fella út í 8. gr. 3. lið c leikreglnanefnd og eftir stendur bara laganefnd og að sama skapi í lið 7 sömu greinar.
Hin breytingartillagan er að bæta við nýrri 12. og 13. grein í lögin, aðrar greinar færist aftur sem því nemur verða þær samþykktar. Nýju greinarnar eru settar til að festa í lögum þær nefndir sem hafa úrskurðarvald innan sambandsins. Er þessi tillaga sett fram til að styðja laga- og regluverk KLÍ vegna dóma sem fallið hafa á undanförnum misserum og gagnrýni í þeim á hvernig sambandið hefur staðið að málum. Er það mat stjórnar KLÍ að þessar viðbætur við lögin okkar ásamt því að endurskoða og bæta regluverkið bæti umgjörð sambandsins til að taka á viðkomandi málum.
Tillaga að nýju reglunum er svohljóðandi:
Ný 12. gr. og allar greinar á eftir færast um númer.
Nefndir á vegum KLÍ með úrskurðarvald
Stjórn KLÍ skal á hverju ári skipa þrjá aðila í hverja af eftirfarandi nefndum og skal formaður hverrar nefndar skipaður sérstaklega:
- Aganefnd
- Mótanefnd
- Dómaranefnd
Nefndir á vegum KLÍ skulu starfa skv. lögum og reglugerðum KLÍ.
Ný 13. gr. og aðrar greinar færast niður um númer
Vald nefnda á vegum KLÍ
Aganefnd skal starfa skv. lögum og reglugerðum KLÍ og vera þar til bær úrskurðaraðili um öll þau deiluefni sem ekki eru sérstaklega falin öðrum í reglugerðum KLÍ.
Þeir sem skipaður eru í aganefnd skulu hvorki sitja í stjórn KLÍ eða stjórnum aðildarfélaga.
Mótanefnd skal starfa skv. lögum og reglugerðum KLÍ og vera þar til bær úrskurðaraðili um þau efni sem henni er sérstaklega falið í reglugerðum KLÍ.
Dómaranefnd skal starfa skv. lögum og reglugerðum KLÍ og sjá um skipulag og framkvæmd dómgæslu í mótum sem haldin eru á vegum KLÍ.
Um hæfi nefndarmanna til úrskurða í einstaka málum skal farið eftir hæfisreglum stjórnsýslulaga. Sé nefndarmaður vanhæfur til meðferðar máls skal stjórn KLÍ skipa annan aðila í hans stað í því tiltekna máli.
Unnt er að kæra framangreinda úrskurði nefnda á vegum KLÍ til dómstóls ÍSÍ.