Keilukeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í Keiluhöllinni í Egilshöll um helgina. Á meðal keppenda voru fjórar konur sem keppa á atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum, þeirri stærstu í heimi, Jesper Agerbo, fyrrverandi heims- og Evrópumeistari, og Arnar Davíð Jónsson, sem vann Evrópumótaröðina 2019 og varð í 5. sæti í kjörinu um íþróttamann ársins 2019. Aldrei hafa eins margir sterkir keilarar komið til landsins vegna mótsins en hátt í 40 erlendir keilarar tóku þátt.
Undankeppni mótsins var spiluð frá fimmtudegi til laugardags. Alls þurfti 230 í meðaltal úr 6 leikja seríu í undankeppninni til að komast í úrslitin í dag og hefur skorið aldrei verið svona hátt í mótinu þau 12 ár sem það hefur verið haldið.
Í útsláttarkeppninni í morgun voru spilaðir margir jafnir leikir og fóru meðal annars tveir þeirra í bráðabana. Í sjálfum úrslitaleiknum eftir hádegi í dag réðust úrslitin í síðasta ramma.
Daria Pajak frá Póllandi, Danielle McEwan frá Bandaríkjunum, Rikke Agerbo frá Danmörku og Hafþór Harðarson úr ÍR komustí fjögurra manna úrslitin. Maria Rodriguez frá Kólumbíu sem var í forystu alla forkeppnina datt út á móti Hafþóri í útsláttarkeppninni í morgun.
Danielle spilaði best allra í fyrsta leiknum með 253 pinna, Hafþór var með 225, Daria með 208, en Rikke féll úr keppninni með 192 pinna leik með forgjöf. Í öðrum leiknum var Hafþór með hæsta leikinn 270, Danielle hélt uppteknum hætti og spilaði 266 og Daria heltist úr lestinni með 253 pinna.
Í síðasta leiknum skiptust Danielle og Hafþór á að taka forystuna og úrslitin réðust ekki fyrr en í 10 ramma. Fór það svo að Hafþór vann með 259 á móti 253 hjá Danielle með forgjöf. Þetta er fyrsti sigur Hafþórs á Reykjavíkurleikunum.
Hægt er að nálgast úrslit inn á rigbowling.is