Nú rétt í þessu lauk keppni á opna alþjóðlega Kúveit mótinu en eins og fram hefur komið keppti Arnar Davíð Jónsson úr Keilufélagi Reykjavíkur til úrslita á því móti. Mótið var bæði hluti af Heimstúrnum sem og gaf PBA titil sem er hluti af bandarísku mótaröðinni. Fyrirkomulag úrslitanna var þannig að efstu 5 keppendurnir áttust við í svokölluðu Step-Ladder fyrirkomulagi þar sem 5. og 4. sætið áttust fyrst við. Sigurvegarinn þar keppti síðan við þann sem varð í 3. sæti og svo framvegis. Þar sem Arnar Davíð varð í 1. sæti fyrir úrslit varð ljóst að hann keppti um titilinn á mótinu og varð þar með fyrsti íslenski keilarinn til að keppa um PBA titil í keilu. Kom það í hlut Englendingsins Dominic Barrett að keppa við Arnar Davíð en Barrett vann sig upp úr 3. sætinu en Barrett á all nokkra titla á sínum ferli, einn besti Englendingurinn í keilu í dag.
Samkvæmt reglum mótsins þurfti Arnar einn sigur á móti Barrett sem aftur á móti þurfti tvo sigra til að hampa titlinum. Barrett vann fyrsta leikinn með 289 gegn 235 en spilað er eftir nýju skorkerfi sem Heimssambandið er að þróa og gefur það hærra meðaltal en hefðbundna kerfið. Það var því ljóst að um hreinan úrslitaleik yrði að ræða og gaf Arnar ekkert eftir, var ískaldur á keilubrautunum. Skiptust þeir á forystu í leiknum og þegar kom að Arnari að spila síðustu tvo rammana náði hann fellum í báðum römmum og neyddi því Barrett til að fá fellu til að sigra. Náði hann því og vann þar með Arnar Davíð með aðeins einum pinna 278 gegn 277. Annað sætið varð því hlutskipti Arnars í dag og fékk hann 25.000,- Bandaríkjadollara í verðlaun fyrir árangurinn.
Arnar Davíð Jónsson keppir um helgina í úrslitum á Heimstúrnum en á því móti er alla jafna keppt til úrslita milli þriggja efstu karla og kvenna á Heimstúrnum ár hvert. Heimssambandið bauð hinsvegar svæðasamböndum keilunnar sem eru þrjú talsins að senda eina konu og einn karl til að keppa á mótinu í ár. Evrópska keilusambandið tilnefndi Arnar Davíð sem keppanda þar sem hann er í efsta sæti á Evrópulistanum í ár. Það er því ljóst að Arnar fer fullur sjálfstrausts inn í þá keppni eftir þennan stórglæsilega árangur í dag.
Myndir: World Bowling