Arnar Davíð Jónsson (KFR) er staddur í Kuwait að keppa á Kuwait International Open og situr sem stendur í 26. sæti en 48 efstu eftir forkeppni fara áfram.
Mótið sem er hluti af WBT (Heimsmótaröðinni) og PBA International (hluti af PBA túrnum) er ekki mjög hefðbundið en spilaðir eru 5 leikir í forkeppni og geta þátttakendur spilað eins oft og þeir geta og telur besta serían.
Arnar Davíð var hársbreidd frá því að ná 800 í fyrstu 3 leikjum sínum en hann spilaði 243-289-267 =799 einungis 1 pinna frá 800 seríu. Arnar endaði seríuna með 221 og 217 sem gerir 247.4 meðaltal og gríðarlega sterk byrjun hjá okkar manni. Mótið er mjög sterkt og skorið hátt en í efsta sæti sem stendur er atvinnumaðurinn ILDEMARO RUIZ sem er með 270.8 meðaltal í þessum 5 leikjum sínum.
Það ber að taka fram að mótið er spilað samkvæmt nýja skor fyrirkomulaginu sem Heimssambandið talar fyrir.
Það virkar þannig að hver fella gefur 30 stig og hver feikja gefur 10 stig + þann pinnafjölda sem var felldur í fyrra kasti.
Forkeppni lýkur 4. nóvember og spilast úrslitin yfir 5. og 6. nóvember.
KLÍ ætlar að fylgjast vel með Arnari Davíð í mótinu og færa ykkur fréttir af gengi hans í Kuwait.
Annars er hægt að sjá stöðuna í mótinu með því að smella hér.