Úrslitakeppni á Íslandsmóti liða hefst í dag

Facebook
Twitter

Úrslitakeppni Íslandsmóts liða hefst í kvöld og verður leikið að venju í Keiluhöllinni Egilshöll en þar eigast við í 1. deild karla ÍR PLS og ÍR KLS. ÍR PLS urðu deildarmeistarar og eiga því heimaleik gegn KLS mönnum. PLS lögðu í undanúrslitum lið KFR Stormsveitarinnar á meðan KLS liðar lögðu KFR Lærlinga. Keiluhöllin verður með tilboð á mat og drykk fyrir keilara á meðan úrslitakeppni er í gangi.

Ögn snúnari staða er í 1. deild kvenna. Lið KFR Valkyrjur sem enduðu í efsta sæti deildarinnar voru kærðar til Dómstóls ÍSÍ af ÍR TT vegna ólöglegs leikmanns KFR Valkyrja í síðustu umferð deildarinnar sem og í þeirri 15. Dómstóll ÍSÍ vísaði frá kæru varðandi 15. umferð þar sem kærufrestur var liðinn en dæmdi ÍR TT í vil í 20. umferð og leikinn því 14 – 0 fyrir ÍR TT. Við það breytist staða deildarinnar en Valkyrjur voru í efsta sæti með 187 stig, ÍR Buff er í 2. sæti með 178 stig og svo kom ÍR TT í 3. sæti með 167 stig. Þar sem leikurinn fór 11 – 3 fyrir Valkyrjum en hann dæmdur þeim tapaður 14 – 0 þá breytist staðan þannig að ÍR liðin eru jöfn að stigum með 178 og Valkyrjur færast niður í 3. sæti með 176 stig. ÍR TT hafði betur í innbyrðis viðureignum við ÍR Buff og enda því í 1. sæti. KFR Afturgöngur kærðu einnig Valkyrjur til stjórnar KLÍ varðandi 19. umferð en stjórn KLÍ vísaði málinu frá sér og bendi á Dómstól ÍSÍ.

Þess ber að geta að KFR Valkyrjur áfrýjuðu dómi Dómstóls ÍSÍ til Áfrýjunardómstóls og verður málið tekið fyrir kl. 14 í dag. Ef niðurstaða kemur ekki frá dómnum í dag verður að fresta úrslitakeppni 1. deildar kvenna þar til dómur fellur.

Keilarar og aðrir áhugasamir eru þó hvattir til að mæta í Egilshöll og styðja sín lið í úrslitakeppninni.

Nýjustu fréttirnar