Liðakeppni á Evrópumóti ungmenna 2018 – Fyrri dagur

Facebook
Twitter

Íslensku stelpurnar ásamt þeim finnsku á EYC2018Í dag voru fyrri 3 leikirnir af 6 leiknir á EYC2018 í Álaborg. Strákarnir byrjuðu daginn og spiluðu vel í fyrsta leik en þá náður þeir fjórir saman alls 794 pinnum eða rétt undir 200 í meðaltal. Botninn datt síðan aðeins niður í leik tvö en strákarnir bættu aðeins í safnið í síðasta leik dagsins. Spiluðu þeir alls 2.184 í þessum þrem leikjum eða 182 í meðaltal. Best þeirra spilaði Jóhann Ársæll Atlason úr ÍA en hann var með 627 seríu, 209 í meðaltal. Strákarnir eru í 14. sæti eftir daginn í liðakeppninni. Stelpurnar spiluðu svo sína þrjá leiki á eftir strákunum.

Fóru þær pínu rólega af stað í fyrsta leik og náðu ágætum öðrum leik og enduðu þær á sléttum 2.000 pinnum eftir leikina þrjá í dag eða með 166,7 í meðaltal. Sitja þær í 10. sæti liðakeppninnar. Best þeirra spilaði Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir úr Þór en hún var með 519 seríu eða 173 í meðaltal. Seinni þrír leikirnir hjá krökkunum verða svo á morgun skírdag.

Í heildarkeppninni féll Steindór Máni Björnsson úr 2. sætinu í það 16. en 24 efstu keilarar í bæði pilta- og stúlknaflokki keppa lokadaginn í Masters keppni. Krakkarnir hafa nú lokið 9 leikjum af alls 18 í keppninni.

Allar upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess sem og má sjá myndir frá hópnum á Fésbókarsíðu hans.

 

Íslensku strákarnir ásamt þeim skosku á EYC2018

Nýjustu fréttirnar