Um helgina lauk okkar fólk keppni á HM í Las Vegas í Bandaríkjunum. Eins og fram hefur komið voru bæði karla- og kvennalandslið Íslands í fyrsta sinn saman á mótinu. Á HM landsliða í keilu er keppt í nokkrum keppnum. Einstaklingkeppni, tvímenningi, þrímenningi og liðakeppni fimm manna liða. Einnig fara 24 meðaltalshæstu leikmenn áfram í svokallaða Masterskeppni og er sigurvegarinn þar krýndur Heimsmeistari einstaklinga. Sú keppni fer fram í dag 4. desember. Jón ingi Ragnarsson úr KFR verð efstur íslensku karlanna samanlagt með 200,33 í meðaltal og Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR efst kvenna í 138. sæti með 174,5 í meðaltal.
Besta árangri okkar fólks náði Hafþór Harðarson úr ÍR í einstaklingskeppninni sem fram fór fyrstu dagana en hann endaði í 26. sæti með 207,8 í meðaltal. Efst kvenna varð Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR en hún endaði í 128. sæti með 177,0 í meðaltal.
Í tvímenningi spiluðu saman þeir Hafþór Harðarson og Gunnar Þór Ásgeirsson úr ÍR en þeir enduðu í 58. sæti með 192,6 í meðaltal. Dagný Edda og Katrín Fjóla Bragadóttir úr KFR enduðu í 80. sæti með 164,2 í meðaltal.
Í þrímenningskeppni náðu Hafþór, Jón Ingi Ragnarsson úr KFR og Arnar Davíð Jónsson KFR 41. sætinu með 191,9 í meðaltal og Dagný, Katrín og Linda Hrönn Magnúsdóttir úr ÍR náðu 47. sætinu með 173,2 í meðaltal.
Í keppni fimm manna liða enduðu karlarnir í 23. sæti af 36 með 189,0 í meðaltal og konurnar enduðu í 28. sæti af 30 með 167,3 í meðaltal.
Allar upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu þess.