Dagur 3 á HM – Tvímenningur karla

Facebook
Twitter

Í gær, mánudaginn 27. nóvember, var leikið í tvímenning karla á HM í keilu í Las Vegas. Alls tóku 108 tvímenningar þátt í þeirri keppni.

Það voru Gunnar Þór Ásgeirsson og Hafþór Harðarson sem náðu bestum árangri íslensku tvímenninganna en þeir enduðu í 58. sæti með 2.311 stig sem gera 192.58 í meðaltal.
Hafþór hélt áfram að spila vel og náði 1.210 pinnum eftir 6 leiki tvímenningsins og situr í 36. sæti í heildarkeppninni eftir einstaklings- og tvímenningskeppnina.

Í dag þriðjudaginn 28. er leikið í tvímenningi kvenna en þar leika þrír tvímenningar frá Íslandi:

  • Guðný Gunnarsdóttir og Linda Hrönn Magnúsdóttir  kl. 17:00 að íslenskum tíma
  • Bergþóra Rós Ólafsdóttir og Hafdís Pála Jónasdóttir kl. 17:00
  • Dagný Edda Þórisdóttir og Katrín Fjóla Bragadóttir kl. 21:40

Í gær var einnig leikið til úrslita í einstaklingskeppni karla og kvenna. Til úrslita í kvennaflokki léku Mai Ginge Jensen frá Danmörku og Futaba Imai frá Japan. Futaba sigraði nokkuð örugglega 191 – 163 og er því heimsmeistari einstaklinga 2017.

Í karlaflokki léku til úrslita Hollendingurinn Xander van Mazjik og Hao-Ming Wu frá Kínversku Taipai. Leikurinn var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrra en í síðasta ramma. Xander van Mazjik spilaði 224 á móti 190 stigum Ming Wu og er því  heimsmeistari einstaklinga 2017.

Mótið heldur síðan áfram næstu daga en þá er keppt í þrímenningi, liðakeppni 5 manna liða og loks fara 24 meðaltalshæstu karlar og konur í svokallaða Masterskeppni. Hafþór situr eins og er í 36. sæti og á ágætis möguleika á að ná þar inn.

Upplýsingar um mótið má finna á vefsíðu þess. Þar má sjá stöður í rauntíma, sjá beinar útsendingar og upptökur frá ákveðnum brautum í South Point Hotel Casino í Las Vegas þar sem keppnin fer fram.

Nýjustu fréttirnar