Keppni er lokið hjá íslensku keppendunum á Evrópumóti unglinga í Finlandi.
Í dag spiluðu stúlkurnar í lokaviðburði mótsins eða einstaklingskeppninni. Það voru þær Helga Ósk Freysdóttir og Elva Rós Hannesdóttir sem hófu leik í fyrri riðli dagsins. Stelpurnar byrjuðu vel en lentu í smá hremmingum á erfiðum brautum en enduðu daginn vel. Eftir hádegi tóku þær Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir og Málfríður Jóna Freysdóttir við. Líkt og í fyrri riðlinum byrjuðu stelpurnar vel og náði Guðbjörg að halda sér á striki fyrstu leikina en svo dafnaði spilamennskan aðeins. Engu að síður bætti hún þrjú persónuleg met í dag með frábærri spilamennsku. Guðbjörg var efst íslensku stelpnanna með 1.087 pinna, næst var Elva Rós með 983 pinna, Helga Ósk með 953 pinna og Málfríður Jóna með 811 pinna.
Efst eftir forkeppnina var Maria Koshel frá Rússlandi en hún mætti Lorna Scott í undanúrslitum þar sem Maria hafði betur í æsispennandi viðureign þar sem úrslitin réðust með svokölluðu rollof þar sem viðureignin endaði í jafntefli. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mættust þær Anna PetáKová frá Tékkland og hin Danska Megan Dicay þar sem Dicay hafði betur með einum pinna í jafnspennandi viðureign. Mættust þær því í úrslitum og sigraði Decay frá Danmörku Koshel frá Rússlandi 216 pinnum gegn 184.
Lokastaða stelpnanna í heildarkeppni Evrópumótsins var eftirfarandi:
34. sæti: Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir – 175,4 meðaltal
42. sæti: Elva Rós Hannesdóttir – 169,7 meðaltal
46. sæti: Helga Ósk Freysdóttir – 162,8 meðaltal
51. sæti: Málfríður Jóna Freysdóttir – 140,5 meðaltal
Á morgun fer fram keppni í svokölluðum Masters þar sem 24 efstu strákarnir og stelpurnar úr öllum greinum mótsins keppa til úrslita. Seinna um kvöldið fer fram lokahóf og er mótinu þar með formlega slitið.