Evrópumóti unglinga lokið hjá strákunum okkar

Facebook
Twitter

Mótinu lokið hjá strákunum okkarÍ dag luku strákarnir okkar leik á Evrópumóti U18 í Helsinki Finnlandi með keppni í einstaklingsflokki. 

Það voru þeir Ágúst Ingi Stefánsson og Steindór Máni Björnsson sem keppu í fyrri riðli dagsins og var vægast sagt mikið á móti þeim. Eftir ágætis byrjun lentu þeir á nokkrum erfiðum brautapörum þar sem þeir voru að elta tvíeyki sem voru hreinlega að tæta upp brautirnar. Tókst þeim aðeins að rétta úr sér í endanum en það var of seint. Í seinni riðlinum tóku þeir Jóhann Ársæll Atlason og Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín. Mikil spenna ríkti hjá strákunum þar sem Jóhann átti góða möguleika að komast í 24 manna úrslit í heildarkeppni mótsins og frá byrjun var spennustigið mjög hátt. Erfið byrjun hjá Jóhanni þýddi að hann þurfti að sækja það sem vantaði í þeim leikjum sem var eftir. Þrátt fyrir góða spilamennsku hjá Jóhanni þá féllu pinnarnir alls ekki með honum og þegar uppi var staðið missti hann af niðurskurðinum með 75 pinnum og endaði í 34. sæti.

Spilamennska strákanna í einstaklingskeppni dagsins var eftirfarandi. Efstur íslensku strákanna var Ólafur með 1.160 pinna (193,3 meðaltal), næstur var Jóhann með 1.135 pinna (189,2 meðaltal), svo kom Ágúst með 1.053 pinna (175,5 meðaltal) og að lokum var Steindór með 947 pinna (157,8 meðaltal). Til að komast í úrslit þurfti 230,7 meðaltal og því spilamennskan frábær hjá efstu mönnum, en þeir sem komust í úrslit voru Ziga Zalar (Slóvenía), Sidney Schroschk (Þýskaland), Emanuel Jonsson (Svíþjóð) og Niko Oksanen (Finnland). Niko Oksanen og Emanuel Jonsson unnu sínar undanúrslitaviðureignir og mættust í úrslitum þar sem Jonsson hafði betur með 213 pinnum gegn 180 pinnum Oksanen og stóð uppi sem sigurvegari í einstaklingskeppninni.

Heildarstaðan hjá strákunum í svokölluðum All-events var eftirfarandi:

34. sæti: Jóhann Ársæll Atlason – 197,6 meðaltal

67. sæti: Ólafur Þór Ólafsson – 181,9 meðaltal

68. sæti: Ágúst Ingi Stefánsson – 181,7 meðaltal

69. sæti: Steindór Máni Björnsson – 179,1 meðaltal

Á morgun ljúka stelpurnar sínu móti með keppni í einstaklingsgrein.

Nýjustu fréttirnar