Í dag lauk liðakeppni á Evrópumóti U18 í Helsinki Finnlandi.
Íslensku stelpurnar hófu leik í morgun og tók þær smá tíma að hrökkva í gang. Það var ekki fyrr en í 3. og síðasta leiknum sem þær tóku sig saman og pökkuðu saman Úkraínu í baráttunni um 8. sætið. Nokkur persónuleg met féllu hjá stúlkunum og telst árangur þeirra góður. Spilamennska stúlknanna í dag var eftirfarandi Elva Rós Hannesdóttir 521 pinnar (173,7 meðaltal), Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir 517 pinnar (172,3 meðaltal), Málfríður Jóna Freysdóttir 501 pinnar (167 meðaltal) og Helga Ósk Freysdóttir 494 pinnar (164,7 meðaltal). Stelpurnar fá frí á morgun og ljúka síðan þáttöku sinni í mótinu á laugardaginn þegar spilað er í einstaklingskeppni.
Strákarnir tóku við eftir hádegi og náðu þeir ekki að bæta árangur gærdagsins. Eftir rólegan fyrsta leik settu þeir í fluggírinn og virtust stefna hátt en erfiður síðasti leikur setti strik í reikninginn og enduðu strákarnir okkar í 12. sæti í liðakeppninni. Jóhann Ársæll Atlason hélt áfram að leiða liðið en hann skilaði 595 pinnum í dag (198,3 meðaltal), Steindór Máni Björnsson var með 564 (188 meðaltal), Ágúst Ingi skilaði 558 (186 meðaltal) og að lokum var Ólafur Þór Ólafsson með 467 (155,7 meðaltal).
Í úrslitum kvenna sigruðu ensku stelpurnar þær finnsku í bráðabana í það sem má lýsa sem æsispennandi leik. Bronsið fór til Hollands og Svíþjóðar. Strákamegin voru það Svíar sem völtuðu yfir samkeppnina í bæði undan úrslitum og úrslitum til að tryggja sér gullið en þær mættu heimamönnum finnum í úrslitum þar sem finnsku strákarnir áttu aldrei möguleika. Bronsið fór til Slóvakíu og Danmerkur.
Á morgun hefst keppni í einliðaleik og eftir þá keppni fara 24 efstu strákarnir og stelpurnar áfram í svokallaðari heildarkeppni betur þekkt sem Masters og hún fer fram á sunnudaginn. Eins og staðan er núna eigum við einn keppanda inni í þeirra keppni en það er hann Jóhann Ársæll Atlason. Ef honum tekst að halda haus í einstaklingskeppni morgundagins á hann möguleika á að komast í Masters lokakeppnina á sunnudaginn. Hann situr sem stendur í 21. sæti og því á hann frábæra möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn.