Í dag hófst liðkeppni á Evrópumóti U18 í Helsinki. Keppt var bæði í drengja og stúlknaflokki.
Það voru strákarnir sem byrjuðu snemma í morgun og var spilamennskan hjá þeim mjög stöðug í gegnum alla þrjá leikina. Eftir 2 leiki sátu þeir í 7. sæti en eftir þriðja leikinn duttu þeir niður í 9. sæti eftir fyrri keppnisdaginn. Hápunktur dagsins var í þriðja leik þegar Jóhann Ársæll Atlason var kominn með 9 fellur í röð með möguleika á fullkomnum leik en það munaði litlu í 10. ramma að honum tækist það. Engu að síður frábær spilamennska hjá Jóhanni sem var efstur af strákunum með 649 pinna (216,3 meðaltal) næstur á eftir honum var Steindór Máni Björnsson með 592 pinna (197,3 meðaltal). Ágúst Ingi Stefánsson skilaði 565 pinnum (188,3 meðaltal) og hann Ólafur Þór Ólafsson Hjaltalín með 528 pinna (176 meðaltal). Svo sannarlega frábær spilamennska hjá strákunum og vonandi klífa þeir upp töfluna á morgun.
Stelpurnar tóku við eftir hádegi og var spilamennskan hjá þeim frekar sveiflukennd. Eftir erfiðan byrjunarleik rifu þær sig í gang og spiluðu 3. hæsta leik dagsins sem skilaði þeim 8. sætinu eftir 1. keppnisdag. Efst hjá stúlkunum var hún Elva Rós Hannesdóttir með 533 pinna (177,7 meðaltal), á eftir henni kom Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir með 531 pinna (177 meðaltal), Helga Ósk Freysdóttir skilaði 454 pinnum (151,3 meðaltal) og að lokum var Málfríður Jóna Freysdóttir með 421 pinna (140,3 meðaltal).
Liðakeppninni lýkur á morgun með 3 leikjum í viðbót og fara 4 efstu lið áfram í undanúrslit.