Fyrsta keppnisdegi á EYC lokið.

Facebook
Twitter

 Keppni á Evrópumeistaramóti U18 í Helsinki hófst í dag með tvímenning drengja. Strákunum okkar gekk þokkalega og áttu þeir allir góða kafla

Báðir tvímenningar lentu á erfiðum brautarpörum sem gáfu lítið af sér. Í fyrsta riðli spiluðu þeir Steindór og Ágúst og eftir góða byrjun komu smá erfiðleikar en tókst þeim að rífa sig upp á endanum. Skiluðu þeir skori upp á 2.214 pinna sem gerir 184,5 í meðal og enduðu þeir í 28 sæti. Í seinni riðlinum var komið að þeim Jóhanni og Ólafi og var spilamennskan hjá þeim nokkuð stöðug þar til í 5. leik þegar það virtist allt ganga á móti þeim. Eftir erfiðan leik réttu þeir sig af í seinasta leiknum og skiluðu skori upp á 2.298 pinna sem gerir 191,5 meðaltal og 23 sæti en í heildina spiluðu 45 tvímenningar.

Spilamennska strákanna telst mjög fín þar sem þetta eru ungir strákar að stíga sín fyrstu sport á erlendri grundu og skiluðu þeir skori vel yfir sín meðaltöl heimafyrir. Þetta er fyrsta Evrópumót Steindórs og Ólafs en þeir Ágúst og Jóhann voru fulltrúar Íslands á Evrópumóti unglinga 2016 þegar mótið fór fram í Keiluhöllinni Egilshöll í Reykjavík.

Eftir forkeppnina voru heimadrengirnir frá Finnlandi langefstir með 2.764 pinna (230,3 meðaltal) en það var einmit gulldrengurinn Niko Oskanen sem spilaði fyrsta fullkomna leikinn í mótinu í seinasta leiknum í morgunriðlinum. Á eftir þeim komu Hollendingar með 2.542 pinna (211,8 meðaltal) og svo fylgdu Frakkar með 2.495 (207,9 meðaltal) og síðastir inn í úrslitin voru strákarnir frá Úkraínu sem spiluðu stórann 6. leik til að tryggja sér sæti í úrslitunum.

Í undanúrslitum mættust Finnar og Úkraína þar sem Úkraína hafði betur með 412 pinnum á móti 402. Í hinni undanúrslitunum áttust við Hollendingar og Frakkar þar Hollendingar höfðu betur með 436 pinnum á móti 399 hjá Frökkum. Í úrslitum mættust Hollendingar og Úkraína í hreint útsagt æsispennandi viðureign þar sem úrslitin réðust í síðasta kasti leiksins. Hollendingurinn Ronan van der Loo opnaði stakan pinna í 10. ramma sem gerði Úkraínu kleift að fella út fyrir gullinu. Úkraínumaðurinn Mykola Sielin setti sennilegast þrjú bestu köst dagsins til fyrir þremur fellum og sigrinum. 

Nýjustu fréttirnar