Brons á fyrsta degi

Facebook
Twitter

Þá er fyrsta keppnisdegi á Small Nations Cup lokið.  Keppt var í parakeppni og þar léku fyrir Ísland þau Magna Ýr Hjálmtýsdóttir og Arnar Davíð Jónsson annars vegar og Dagný Edda Þórisdóttir og Björn G. Sigurðsson hins vegar.

Leiknir voru 6 leikir í forkeppni og komust 4 efstu pörin áfram.  Dagný og Björn áttu ekki sinn besta dag. Dagný spilaði 1086 eða 181 í meðaltal en Björn 1149 sem gera 191,5 í meðaltal. Samtals spiluðu þau því 2235 eða 186,2 í meðaltal og skilaði það þeim í 5. sæti.
Magna Ýr og Arnar Davíð léku vel í dag. Magna spilaði 1220 eða 203,3 í meðaltal og Arnar Davíð 1279 sem gera 213,2 í meðaltal. Samtals voru þau með 2499 eða 208,2 í meðaltal.  Þetta skilaði þeim í 3. sæti í forkeppninni og sæti í undanúrslitum.
Þar mættu þau Möltu. Sá leikur var mjög spennandi allan tímann og réðust úrslitin í síðasta ramma. Magna spilaði 202 og Arnar 226. Samtals voru þau því með 428 á móti 448 stigum Maltverja. Magna og Arnar enda því í 3. – 4. sæti.
Til úrslita léku því Malta og Kýpur. Malta vann þar nokkuð þægilegan sigur 382 – 295.

Á morgun verður leikið í tvímenning. Að honum loknum hefst svo keppni í liðakeppni. 

Nýjustu fréttirnar