Stjórn Keilusambands Íslands (KLÍ) skorar á aðalstjórn ÍR og stjórn ÍTR að hverfa ekki frá fyrirhugaðri aðstöðu keilunnar í Breiðholti.
Stjórn KLÍ hefur eins og aðrir tekið eftir því í fréttum að Reykjavíkurborg hefur komist að samkomulagi við ÍR um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Seljahverfi. Því ber að sjálfsögðu að fagna en einnig vekur það athygli að keilan er ekki þar inn í þrátt fyrir að hafa verið í eldri hugmyndum að aðstöðu í hverfinu. Stjórn KLÍ harmar þá ákvörðun.
Keilan á undir högg að sækja með aðstöðu bæði í Reykjavík og víðar á landinu. Stutt er síðan að tveir salir voru í Reykjavík, Keilusalurinn í Öskjuhlíð og Keiluhöllin í Egilshöll, samtals með 44 brautum. Eins og kunnugt er hefur salnum í Öskjuhlíð verið lokað og því aðeins 22 brautir eftir til ráðstöfunar fyrir almenning og keppniskeiluna.
Nú er svo komið að ásókn almennings í keilu er það mikil að rekstraraðilar Egilshallar hafa boðið Reykjavíkurfélögunum búnaðinn úr Öskjuhlíð til afnota til að geta betur nýtt Egilshöll undir almenna keilu. Samkvæmt okkar upplýsingum er gert ráð fyrir að opna aðstöðu með 10 – 14 brautum fyrir Reykjavíkurfélögin. Þótt þau fengju full yfirráð yfir þeim sal er ljóst að sú aðstaða yrði aðeins til að viðhalda núverandi stöðu íþróttarinnar og möguleikinn til að efla og fjölga iðkendum í íþróttinni því mjög takmarkaður. Því skorar stjórn KLÍ á aðalstjórn ÍR og stjórn ÍTR að endurskoða þá ákvörðun að hafa keiluna ekki inn í því samkomulagi sem á borðinu er og berjast að fullum krafti fyrir því að fyrri áform um aðstöðu keilunnar í Breiðholti haldi sér.
F.h. stjórnar KLÍ
Ásgrímur H. Einarsson
Formaður