Þann 27. desember sl.fór fram athöfn í ÍR heimilinu þar sem íþróttafólk ÍR fyrir árið 2016 var kunngjört.
Hjá keiludeildinni voru það Hafþór Harðarson úr ÍR PLS og Linda Hrönn Magnúsdóttir úr ÍR TT sem voru valin. Auk þess fengu þeir félagarnir Andrés Haukur Hreinsson og Guðmundur Jóhann Kristófersson í ÍR Keila.is silfurmerki ÍR fyrir óeigingjörn störf þeirra fyrir deildina á liðnum árum.
Afrek Hafþórs á þessu ári eru m.a. að hann varð Íslandsmeistari með liði sínu ÍR PLS í vor. Einnig varð hann ásamt Einari Má liðsfélaga sínum Íslandsmeistari í tvímenningi nú nýverið. Hafþór varð meðaltalshæsti einstaklingurinn að loknu síðasta keppnistímabili og náði góðum árangri á RIG leikunum en þar endaði hann í 2. sæti á eftir Rikke Holm Agerbo eftir æsispennandi keppni. Hafþór sigraði einnig AMF forkeppnina hér heima á árinu og var fulltrúi Íslands á AMF World Cup sem fram fór í Shanghai nú í október s.l.
Afrek Lindu á þessu ári eru m.a. þau að hún varð í 2. sæti á Íslandsmóti einstaklinga kvenna, varð í 2. sæti á Íslandsmóti para með Stefáni Claessen úr ÍR KLS. Linda varð Bikarmeistari 2016 með liði sínu ÍR TT og tók þátt í landsliðsverkefnum KLÍ og keppti á EM 2016 í Vín en þar tryggði landsliðið sér þátttökurétt á HM 2017.
Stjórn keiludeildarinnar óskar þeim Hafþóri og Lindu til hamingju með kjörið, þakkar Andrési og Ganda fyrir vel unnin störf þeirra í þágu deildarinnar sem og þjálfurum okkar og öðrum sjálfboðaliðum fyrir ómetanlegt starf. Stjórn keiludeildarinnar óskar einnig öllum ÍR keilurum góðs gengis á komandi ári með von um sigursælt ár, fullt af verðlaunum og hærra meðaltal.