Keilusamband Íslands hefur valið Hafdísi Pálu Jónasdóttir úr KFR og Arnar Davíð Jónsson úr KFR sem keilara ársins 2016.
Hafdís Pála Jónasdóttir KFR
Helstu afrek Hafdísar á árinu 2016 eru þau að hún varð Íslandsmeistari einstaklinga, Reykjavikurmeistari einstaklinga og Íslandsmeistari með liði sínu KFR-Valkyrjum. Hafdís varð einnig fyrsta íslenska konan til að spila 300 eða fullkominn leik. Hafdís var í landsliði Íslands sem lék á Evrópumótinu í Austurríki í sumar en liðið tryggði sér þar þátttökurétt á HM 2017. Hafdís hefur starfað við unglingaþjálfun hjá félagi sínu, KFR, og þannig verið fyrirmynd ungra og efnilegra keilara.
Arnar Davíð Jónsson KFR
Helstu afrek Arnars á árinu 2016 eru að hann varð Íslandsmeistari einstaklinga en það var eina mótið sem hann tók þátt í á Íslandi á árinu. Arnar Davíð er búsettur í Noregi og stundar íþróttina þaðan. Hann leikur þar með liðinu Frogner BK og situr Arnar í 7. sæti norska styrkleikalistans. Meðal sterkra móta sem hann tók þátt í erlendis eru Kongsvinger Open 3. sæti, Drammen open 8. sæti, Norwegian Open 10 sæti og Ringerike open 6. sæti. Arnar Davíð var fyrirliði íslenska landsliðsins á Evrópumótinu í Belgíu í sumar og tók þátt í Evrópumóti landsmeistara í Tékklandi í haust og endaði í 8. sæti. Við útgáfu á síðasta meðaltali Keilusambands Íslands kom í ljós að Arnar Davíð er með næst hæsta meðaltal íslenskra karla 215 að meðaltali. Arnar Davið er góð fyrirmynd ungra keilara.