Íslenska kvennalandsliðið í keilu er þessa dagana að keppa á EM í Vín í Austurríki. Einstaklingskeppni þar er lokið og sigraði Keira Reay frá Englandi Daria Kovalova frá Úkraínu í úrslitum. Eftir forkeppnina var Sandra Anderson frá Svíþjóð í efsta sæti með 224,3 í meðaltal. Íslensku stelpunum gekk bærilega en efst þeirra varð Katrín Fjóla Bragadóttir úr KFR í 51. sæti með 189,7 í meðaltal.
Ástrós Pétursdóttir úr ÍR varð í 57. sæti í einstaklingskeppninni með 187,2 í meðaltal – Dagný Edda Þórisdóttir úr KFR varð í 70. sæti með 183,3 – Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR varð í 90. sæti með 177 – Bergþóra Rós Ólafsdóttir úr ÍR varð í 120. sæti með 160,8 og Linda Hrönn Magnúsdóttir varð í 126. sæt með 155,5 í meðaltal.
Í gær var svo keppt í tvímenningi en þar sigruðu Nina Flack og Joline Persson-Plannesfors frá Svíþjóð þær Martina Schütz og Laura Bauthner frá Þýskalandi í úrslitum með 432 pinnum gegn 376. Joline þekkir ágætlega til hér á landi en hún keppti á RIG 2016 leikunum sem fram fóru snemma á þessu ári.
Sænsku stelpurnar voru efstar eftir forkeppni í tvímenningi og þær þýsku í öðru sæti. Katrín og Dagný kepptu saman fyrir Íslands hönd og enduðu í 38. sæti með 186,2 í meðaltal. Bergþóra og Linda enduðu í 51. sæti með 177,8 í meðaltal og þær Hafdís og Ástrós urðu í 59. sæti með 172 í meðaltal.
Í heildarkeppni einstaklinga (All Events), einhversskonar Evrópumeistakeppni einstaklinga, er Hayley Russel frá Englandi efst með 217,1 í meðaltal. Katrín er efst Íslensku keppenda þar en hún er í 35. sæti með 186,5 í meðaltal. Dagný er skammt undan í 37. sæti með 186,3 og Ástrós í næsta sæti með 186,2. Síðan er Berþóra í 117. sæti með 173,5 í meðaltal – Hafdís í 119. sæti með 172,3 og Linda í 127. sæti með 162,5 í meðaltal. 24 efstu konurnar úr All Events fara að lokum í masterskeppni sem verður síðasta daginn og vantar Katrínu, Ástrósu og Dagnýu um 30 pinna upp á að komast í gegn um þann niðurskurð og því allt opið í þeim efnum.
Í dag verður keppt í þrímenningi sem og á morgun en á fimmtudag og föstudag verður keppr í liðakeppni (5 manna lið). Allar upplýsingar um mótið má sjá á vef þess EWC2016 og einnig er hægt að fylgjast með framvindu og komast í beinar útsendingar frá mótinu á Fésbókarsíðunni Streamforce4bowling.