Um páskana fer fram í Keiluhöllinni Egilshöll Evrópumót ungmenna EYC2016. Er þetta í fyrsta sinn sem mótið er haldið hér á landi og kemur það til vegna þess hversu vel gekk að halda hér Evrópumót einstaklinga um haustið 2014. Evrópumót ungmenna er þó öllu stærra í framkvæmd því flest lið senda um nokkra keppendur í bæði pilta- og stúlknaflokki auk þjálfara og aðstoðarfólks.Alls verða um 140 þátttakendur á mótinu frá 26 Evrópuþjóðum og verða vel á annað hundrað þjálfarar og aðstoðarmenn þeim til halds og trausts.
Fyrir hönd Íslands keppa 4 piltar og 4 stúlkur en það eru þau:
- Ágúst Ingi Stefánsson ÍR
- Jóhann Ársæll Atlason ÍA
- Jökull Byron Magnússon KFR
- Þorsteinn Hanning Kristinsson ÍR
og
- Elva Rós Hannesdóttir ÍR
- Guðbjörg Harpa Sigurðardóttir Þór (vantar á mynd)
- Helga Ósk Freysdóttir KFR
- Jóhanna Ósk Guðjónsdóttir ÍA
Meðal þátttakenda á mótinu er núverandi Evrópumeistari kvenna í fullorðinsflokki hún Maria Bulanova frá Rússlandi en hún er fædd í október 1998 og því á 18. ári. Maria keppti hér á landi á áðurnefndu Evrópumeistaramóti einstaklinga sem fram fór í október 2014. Maria sigraði á ECC2015 sem fram fór í San Marino á síðasta ári. Einnig mæta til leiks mjög sterkir keilarar frá Svíþjóð og Finnlandi svo einhverjir séu nefndir.
Mótið hefst í Keiluhöllinni Egilshöll á sunnudaginn með formlegri æfingu kl. 10 og stendur hún fram eftir degi. Allar upplýsingar um mótið, dagskrá, keppendur, skor o.fl. má finna á vef mótsins www.eyc2016.eu
Fréttir af mótinu verða einnig birtar hér og á Fésbókarsíðu Keilusambandsins.