Í gærkvöldi fór fram Meistarakeppni Keilusambandsins 2015. Eigast þar við Íslandsmeistarar og bikarmeistarar síðasta tímabils. Sigurvegarar kvöldsins voru í karlaflokki ÍR KLS og í kvennaflokki ÍR Buff. Þessi keppni er formleg byrjun á komandi tímabili í keilu.
ÍR KLS keppti við KR A sem eru bikarmeistarar 2015. Fóru leikar þannig að KLS menn unnu alla þrjá leikina og enduðu með 1.760 pinna eða 195,6 í meðaltal. KR A spilaði 1.760 eða 173,8 í meðaltal.
ÍR Buff sem eru bæði Íslands og bikarmeistarar kepptu við ÍR BK en þær urðu í öðru sæti í bikarkeppninni í ár. Fóru leikar þar þannig að ÍR Buff stelpur unnu tvo af þrem leikjum og enduðu með 1.378 pinna eða 177,7 í meðaltal. ÍR BK náðu að vinna annan leikinn með aðeins tveim pinnum og enduðu með 1.378 eða 153,1 í meðaltal.
Núna fara deildirnar að detta í gang og tímabilið því að fara á fullt. Óskum öllum keilurum góðs gengis á tímabilinu og vonandi ná sem flestir markmiðum sínum.