Hafþór Harðarson ÍR og Dagný Edda Þórisdóttir KFR eru Reykjavíkurmeistarar

Facebook
Twitter

Hafþór Harðarson ÍR og Dagný Edda Þórisdóttir KFR eru Reykjavíkurmeistarar í keilu 2015Um helgina fór fram opna Reykjavíkurmót einstaklinga í Keiluhöllinni Egilshöll. Alls kepptu 20 karlar og 14 konur og voru spilaðir 9 leikir í forkeppni. Leikar fóru þannig að Hafþór Harðarson ÍR sigraði Frey Bragason KFR í þrem leikjum í úrslitum 707 gegn 647. Dagný Edda Þórisdóttir KFR sigraði Lindu Hrönn Magnúsdóttur ÍR einnig í þrem leikjum 620 gegn 549. Eru þau Dagný Edda og Hafþór því Reykjavíkurmeistarar 2015 í keilu.

Þess má geta að í forkeppninni spilaði Dagný Edda 289 leik sem er aðeins einum pinna frá núgildandi Íslandsmeti.

Eftir forkeppnina sem var í gær, laugardag, og í dag fóru leikar þannig að eftir forkeppnina var Hafþór Harðarson ÍR efstur með 2.024 pinna eða 224,9 í meðaltal eftir 9 leiki. Í öðru sæti var Einar Sigurður Sigurðsson sem keppir nú undir merkjum ÍA með 1.934 pinna (214,9 mt.). Í þriðja sæti var Freyr Bragason KFR með 1.903 pinna (211,4) og í fjórða sæti var Þorleifur Jón Hreiðarsson KR með 1.874 pinna (208,2). Þorleifur sigraði einmitt þetta mót fyrir ári.

Í úrslitum, þar sem fjórir efstu í karla- og kvennaflokki kepptu, sigraði Hafþór hann Þorleif í þrem leikjum 723 (241 mt.) gegn 594 (198 mt.). Freyr sigraði Einar einnig í þrem leikjum með 617 (205,7 mt.) gegn 584 (194,7 mt.). Hafþór sigraði svo Frey eins og segir hér að ofan. Vinna þarf tvo af þrem leikjum í úrslitum.

Hjá konunum voru efstar eftir forkeppni þær Dagný Edda KFR með 1.827 pinna eða 203,0 í meðaltal. Í örðu sæti varð Linda Hrönn ÍR með 1.679 pinna (186,6 mt.). Í þriðja sæti varð Ástrós Pétursdóttir ÍR með 1.643 pinna (182,6 mt.) og í fjórða sæti varð Guðný Gunnarsdóttir ÍR með 1.534 pinna (170,4 mt.)

Í úrslitum sigraði Dagný Edda hana Guðnýju í tveim leikjum 426 (213 mt.) gegn 362 (181 mt.) Linda sigraði Ástrósu einnig í tveim leikjum 346 (173 mt.) gegn 333 (166,5 mt.) Seinni leikurinn hjá Lindu og Ástrósu fór í jafntefli 177 gegn 177 en Lindu nægði jafntefli í þeim leik til að komast áfram. Dagný Edda sigraði svo Lindu Hrönn eins og segir hér að ofan.

Keilusambandið óskar sigurvegurum til hamingju með titilinn.

Freyr Bragason KFR varð í 2. sæti, Hafþór Harðarson ÍR sigraði og Þorleifur Jón Hreiðarsson KR varð í 3. sæti Ástrós Pétursdóttir ÍR í 3. sæti, Linda Hrönn NAgnúsdóttir ÍR í 2. sæti, Dagný Edda Þórisdóttir KFR 1. sæti og Guðný Gunnarsdóttir ÍR einnig í 3. sæti

Nýjustu fréttirnar