Í dag (mánudag) hófu keppni á Evrópumóti ungmenna 2015 þær Jóhanna Ósk Guðjónsdóttir og Natalía G Jónsdóttir, báðar frá Keilufélagi Akraness. Róðurinn var þungur hjá stelpunum í dag. Þrátt fyrir marga góða bolta fengu þær glennur og klippingar þannig að skorið var þar af leiðandi ekki eins og best var kosið. Natalía skilaði 836 pinnum í sex leikjum eða 139,33 í meðaltal og Jóhanna skilaði 889 pinnum eða 148,12 í meðaltal. Enduðu þær stöllur í 27. og neðsta sæti.
Á morgun (þriðjudag) hefst svo liðakeppni hjá strákunum kl. 07:00 og stelpurnar keppa kl. 11:15. Fylgjast má með keppninni á vef mótsins.
Þess má geta að Keilusamband Íslands hefur tekið að sér að sjá um Evrópukeppni ungmenna á næsta ári og fer það fram um páskana 2016. Verður það eitt fjölmennasta mót sem íslenska keilusamfélagið hefur staðið fyrir.