Frá EYC2015 í Leipzig Þýskalandi – Fyrsti keppnisdagur

Facebook
Twitter

Jökull Byron Magnússon úr Keilufélagi Reykjavíkur og Aron Fannar Beinteinsson úr Keilufélagi AkranessFyrsti keppnisdagur á Evrópumóti ungmenna í keilu 2015 var í dag sunnudaginn 29. mars og hófst hann á tvímenningi. Hlynur Örn Ómarsson og Alexander Halldórsson, báðir úr ÍR, hófu leik snemma í morgun. Voru þeir mjög jafnir í spilamennskunni og enduðu með 193 í meðaltal. Hlynur spilaði 1.152 eða 192,00 í meðaltal og Alexander var með 1.167 pinna eða 194,5 í meðaltal. Alexander setti persónulegt met í 4 og 5 leikjum, 828 og 1.031 pinnar.

Alexander Halldórsson og Hlynur Örn Ómarsson báðir úr ÍR.Síðar um daginn hófu keppni þeir Jökull Byron Magnússon úr Keilufélagi Reykjavíkur og Aron Fannar Beinteinsson úr Keilufélagi Akraness. Jökull spilaði 1.099 pinna eða 183,17 í meðaltal en Aron Fannar spilaði best íslensku strákana í dag. Náði Aron Fannar1.264 pinnum eða 210,67 í meðaltal sem er hans persónulegt met í 6 leikjum. Þeir Jökull og Aron Fannar enduðu því með 196,92 í meðaltal og sitja í 18. sæti en Hlynur og Alexander eru í 24. sæti af 47 tvímenningum. Stórglæsilegur árangur hjá íslensku strákunum í dag.

Á morgun (mánudag) hefja svo keppni þær Jóhanna Ósk Guðjónsdóttir og Natalía G Jónsdóttir, báðar frá Keilufélagi Akraness, en þær byrja kl. 09:00 að íslenskum tíma. Fylgjast má með keppninni á vef mótsins.

Þess má geta að Keilusamband Íslands hefur tekið að sér að sjá um Evrópukeppni ungmenna á næsta ári og fer það fram um páskana 2016. Verður það eitt fjölmennasta mót sem íslenska keilusamfélagið hefur staðið fyrir.

Nýjustu fréttirnar